Örorka

Þeir sem eru á aldrinum 18-67 ára geta sótt um að fara í örorkumat þar sem metin er færni eftir sjúkdóma, slys eða fötlun. Skilyrði er að endurhæfing sé fullreynd eða að læknir staðfesti að endurhæfing eigi ekki við.

Fylgiskjöl með umsókn

Þegar sótt er um örorku þarf alltaf að skila inn umsókn en auk þess þarf að skila inn eftirtöldum gögnum:

 • Læknisvottorð vegna umsóknar um örorkumat
 • Spurningalisti um færniskerðingu (fylltur út af umsækjanda)
 • Greinargerð frá endurhæfingaraðila sem staðfestir að endurhæfing sé fullreynd (ef við á)
 • Tekjuáætlun 
 • Staðfesting um að sótt hafi verið um hjá lífeyrissjóði eða að réttur á greiðslum sé ekki til staðar
 • Upplýsingum um nýtingu skattkorts (hægt að skrá inni á Mínum síðum)

Tekjuáætlun

Tekjuáætlun er forsenda greiðslna frá TR. Til að lífeyrisþegar fái réttar greiðslur er mikilvægt að skila inn tekjuáætlun. Allar skattskyldar tekjur eru skráðar á tekjuáætlunina:

 • Atvinnutekjur, lífeyrissjóður, tekjur frá stéttarfélagi og fjármagnstekjur eins og t.d. vextir af innistæðum, leigutekjur o.s.frv.
 • Greiðslur úr séreignasjóðum hafa ekki áhrif
 • Greiðslur félagslegrar aðstoðar sveitarfélaga hafa ekki áhrif
 • Allar upphæðir þurfa að vera heildartekjur fyrir skatt (brúttó)
 • Settar eru inn áætlaðar tekjur frá þeim tíma sem sótt er um og til ársloka

Spurt og svarað

Vinnslutími fyrstu umsóknar er venjulega 14 vikur. Endurmat til örorkulífeyris er yfirleitt sex vikur í vinnslu. Biðtími miðast við að öll gögn hafi borist til TR.

Heildargreiðsla miðað við 100% örorku er 247.183 kr. 

Greiðslur örorkulífeyris skiptast í þrjá grunnflokka: 

 • Örorkulífeyrir: 46.481 kr. 
 • Aldurstengd örorkuuppbót (100%): 46.481 kr. 
 • Tekjutrygging örorku, slysa- eða endurhæfingarlífeyrisþega: 148.848 kr.

Hægt er að sjá frekari upplýsingar um fjárhæðir hér. 

Allar skattskyldar tekjur hafa áhrif á örorkulífeyri. Þar eru með taldar tekjur frá lífeyrissjóðum og vinnu, fjármagnstekjur o.s.frv. Tekjur frá séreignasjóðum og félagsleg aðstoð hafa ekki áhrif á greiðslur.

Mismunandi frítekjumark er á tekjum eftir því hvaðan þær koma:

 • Atvinnutekjur mega vera 1.315.000 kr. á ári án þess að hafa áhrif á greiðslur.
 • Greiðslur frá lífeyrissjóðum mega vera 328.000 kr. á ári án þess að hafa áhrif en hafa þó ekki áhrif á grunnlífeyri.
 • Fjármagnstekjur mega vera 98.640 kr. á ári.

Hægt er að setja forsendur inn í reiknivél lífeyris og skoða þar áhrif tekna á tekjur. Einnig er hægt að skoða fjárhæðir betur hér.

Tekjur maka hafa almennt ekki áhrif á lífeyri frá TR. Hér er þá átt við tekjur t.d. frá atvinnu eða lífeyrissjóði.

Fjármagnstekjur eru hins vegar sameiginlegar með hjónum/sambúðarfólki og því hafa fjármagnstekjur maka áhrif á greiðslur frá TR. Heildar fjármagnstekjum er skipt til helminga á milli hjóna/sambúðarfólks.

 

 • Réttur til örorkulífeyris myndast við 75% örorkumat. Ýmis réttindi geta fylgt örorkulífeyri eftir því sem við á, t.d. tekjutrygging, heimilisuppbót, bensínstyrkur, barnalífeyrir o.fl. Örorkulífeyrisþegar geta einnig fengið örorkuskírteini sem veitir ýmsan afslátt.
 • Réttur til örorkustyrks myndast við 50% örorkumat. Engin viðbótarréttindi fylgja örorkustyrk nema til þeirra sem hafa börn innan 18 ára á sínu framfæri. Örorkuskírteini er ekki gefið út vegna örorkustyrks. 
 • Afpláni lífeyrisþegi refsingu í fangelsi falla niður allar greiðslur TR til hans.
 • Sé lífeyrisþegi úrskurðaður í gæsluvarðhald eða sé hann á annan hátt úrskurðaður til dvalar á stofnun falla niður allar greiðslur TR til hans eftir fjögurra mánaða samfellt gæsluvarðhald eða dvöl.
 • Þegar bætur hafa verið felldar niður er heimilt að greiða ráðstöfunarfé í samræmi við 8. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar. Hægt er að sækja um ráðstöfunarfé hjá Tryggingastofnun.
 • Þegar fangi lýkur afplánun á áfangaheimili, t.d. Vernd eða með rafrænu eftirliti, hefjast lífeyrisgreiðslur að nýju svo framarlega að réttur sé enn til staðar. Fari fangi aftur í fangelsi falla greiðslur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar.

 • Hafi lífeyrisþegi verið meðlagsskyldur og TR hefur ráðstafað barnalífeyri upp í meðlag þá heldur sú ráðstöfun áfram svo lengi að réttur sé enn til  staðar.
 • Heimilt er að greiða maka einstaklings sem sætir gæsluvarðhaldi eða er í fangelsi, barnalífeyri með börnum hans svo framarlega að vistin hafi varað í a.m.k. þrjá mánuði.