Umönnunargreiðslur

Markmið umönnunargreiðslna er að veita fjárhagslegan stuðning til framfærenda fatlaðra og/eða langveikra barna auk barna með þroskaraskanir. Þetta er félagsleg aðstoð sem veitt er þegar umönnun er krefjandi og kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu, meðferðar og þjálfunar er orðinn umtalsverður.

Umönnunarmat getur verið frá fæðingu barns og til 18 ára aldurs. Umönnunargreiðslur eru skattfrjálsar og greiddar út fyrirfram í byrjun mánaðar.

Umönnunarmat byggir á 4. grein laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 og reglugerð nr. 504/1997.

Fylgiskjöl með umsókn:

  • Læknisvottorð 
  • Upplýsingar um meðferð barns
  • Staðfesting á útlögðum kostnaði (afrit af kvittunum)
  • Eftir atvikum greinargerðir félagsráðgjafa, lækna, sálfræðinga, starfsmanna skóla, og annars fagfólks
  • Tillaga að umönnunarmati frá félagsþjónustu sveitarfélags ef um er að ræða barn með fötlun (TR kallar eftir þessum upplýsingum frá viðkomandi sveitarfélagi)

Spurt og svarað

Í 4. grein reglugerðar 504/1997 eru settir fram ákveðnir flokkar sem byggja á erfiðleikum barns (fötlun/sjúkdóm), gæslu og þeim útgjöldum sem fallið hafa til vegna barnsins. Annars vegar er flokkun vegna fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir og hins vegar flokkun vegna barna með langvinn veikindi.

Einnig eru tiltekin greiðslustig sem miðast við umönnun og kostnað vegna barnsins, þannig að umönnunargreiðslur geta verið misháar innan hvers flokks. Sjá nánari skiptingu undir fjárhæðir.

Hvert mál er metið út frá þessum forsendum. Skoða þarf eftirfarandi: 

  1. Hvaða erfiðleika barn glímir við?
  2. Hvaða gæsla, umönnun og meðferð er í gangi á hverjum tíma? 
  3. Hver er staðfestur útlagður kostnaður hjá framfærendum vegna barnsins?

Hægt er að skoða allar upphæðir hér

Umönnunarmat getur að hámarki varað í fimm ár samkvæmt reglugerð. Flest umönnunarmöt vegna barna eru til tveggja til fimm ára í senn. Í einstaka tilvikum getur reynst nauðsynlegt að gera styttri möt. Ekki er alltaf hægt að gera umönnunarmat til langs tíma þar sem þarfir barna, umönnun, erfiðleikar og útlagður kostnaður er mismunandi og getur breyst frá einum mánuði til annars.

Þegar til staðar eru mjög íþyngjandi aðstæður (miklir erfiðleikar, umönnun, innlagnir á sjúkrahús og kostnaður) geta umönnunargreiðslur verið tímabundið hærri. Slíka aukna aðstoð getur þurft að veita til skemmri tíma og gera síðar endurmat á aðstæðum barns.

Umönnunargreiðslur fara til þess framfæranda sem barn er með lögheimili hjá. Ef barn eða móttakandi umönnunargreiðslna flytur þannig að lögheimilið er ekki lengur það sama þá fellur umönnunarmat niður. Nýr framfærandi þarf þá að skila inn umsókn og sækja um að umönnunarmat verði virkjað að nýju og greiðslur (ef við á) færðar á nýjan framfæranda.

Mikilvægt er að veitt aðstoð sé í samræmi við aðstæður barns og fjölskyldu á hverjum tíma. Við breytingar á veikindum barns, umönnunarþunga, innlagna á spítala og aðrar slíkar aðstæður getur verið nauðsynlegt að sækja um endurmat á gildandi umönnunarmati.

Við endurmat þarf umsókn frá framfæranda, læknisvottorð og mögulega kvittanir fyrir útlögðum kostnaði.

Við andlát barns er heimilt að halda greiðslum í allt að sex mánuði frá andláti en sækja þarf um það sérstaklega.

Umönnunargreiðslur má ekki greiða úr landi og því fellur umönnunarmat niður ef framfærandi/barn flytur erlendis.

Umönnunargreiðslur falla niður ef barn er í vistun utan heimilis, t.d. þegar þau fara í fóstur eða aðra sambærilega vistun greidda af félagsmálayfirvöldum.

Umönnunargreiðslur geta verið skertar ef barn fer í skammtímavistun eða til stuðningsfjölskyldu sem er umfram átta sólarhringa á mánuði.

Þá getur verið að umönnunargreiðslur falli alveg niður ef framfærandi leggur ekki fram staðfestingar á útlögðum kostnaði vegna meðferðar barnsins.

Umönnunarkort eru veitt með umönnunarmati og ekki þarf að sækja sérstaklega um þau.

Kortin birtast á Mínum síðum og framfærandi getur prentað þau út. Umönnunarkort veita afslátt af ýmissi heilbrigðisþjónustu, s.s. af komugjöldum til sérfræðinga, læknisfræðilegum rannsóknum og þjálfun barna. Ekki er þörf á að framvísa kortinu við þær aðstæður.

Sum fyrirtæki og stofnanir veita einnig afslátt gegn framvísun umönnunarkortsins. Athugaðu hvort slíkt sé í boði en mundu að hafa kortið meðferðis.

Ef umönnunargreiðslur hafa verið samþykktar þá er hægt að sækja um niðurfellingu bifreiðagjalda. Sótt er um niðurfellingu bifreiðagjalda hjá skattinum með þessu eyðublaði.