Foreldri barns sem búsett er hér á landi, getur óskað eftir að TR greiði meðlag með barni sínu eftir að meðlagsákvörðun liggur fyrir. Skilyrði er að barnið sé búsett hjá viðkomandi foreldri. Meðlag er greitt til 18 ára aldurs barnsins. Heimilt er að greiða meðlag eitt ár aftur í tímann frá því að öll gögn hafa borist sé þess getið í meðlagsákvörðun. Aðeins er hægt að sækja um á Mínum síðum.
Meðlagsákvörðun getur verið:
- Staðfestur samningur eða úrskurður útgefinn af sýslumanni
- Dómur eða dómssátt
- Erlendur meðlagssamningur
TR greiðir aðeins einfalt meðlag og er fjárhæðin sú sama og greiðslur barnalífeyris. Allt umfram einfalt meðlag fer eftir samkomulagi milli foreldra. Þetta gildir einnig þó svo að meðlagsákvörðun kveði á um hærri greiðslur. Í slíkum tilvikum verða foreldrar að semja um það á milli sín hvernig sá mismunur er greiddur.
Bráðabirgðameðlag
Ef barn er ófeðrað er heimilt að greiða meðlag til bráðabirgða. Staðfesting sýslumanns eða lögmanns þarf að liggja fyrir um að málarekstur sé í gangi. Greiðslur eru síðan gerðar upp þegar fyrir liggur meðlagsákvörðun.
Sérstakt framlag
Foreldri sem þiggur meðlag getur sótt um viðbótargreiðslur vegna sérstakra útgjalda svo sem við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni.
Skila þarf inn ákvörðun sýslumanns um greiðslu sérstaks framlags.
Greiðsla meðlags við flutning til landsins
Flytji umsækjandi meðlags til Íslands þarf hann að leggja fram með umsókn sinni staðfestingu á að greiðslum sé lokið í fyrra búsetulandi.
Frumrit úrskurðar/samnings þarf að fylgja með umsókn.
Aðrar greiðslur
Sýslumaður getur úrskurðað að föður barns beri að greiða móður þess framfærslueyri í þrjá mánuði í kringum fæðingu barnsins ef sérstaklega stendur á. Veikist móðirin vegna meðgöngu eða fæðingar má úrskurða að föður beri að greiða framfærslueyri í allt að níu mánuði.