Foreldragreiðslur

Foreldragreiðslur eru greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Markmið greiðslnanna er að tryggja foreldrum fjárhagsaðstoð þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna veikinda eða fötlunar barna sinna. Um sameiginlegan rétt foreldra er að ræða. Foreldri og barn verða að eiga lögheimili hér á landi þann tíma sem greitt er. Hámarks gildistími mats getur verið eitt ár. 

Helstu skilyrði fyrir foreldragreiðslum samkvæmt lögum nr. 22/2006 eru að:

  • Barn geti ekki verið í vistun á vegum opinberra aðila, t.d. á leikskóla eða í skóla
  • Foreldri eigi ekki rétt á greiðslum úr sjúkrasjóði stéttarfélags, atvinnuleysisbótum, fæðingarorlofs eða - styrks og sé ekki lífeyrisþegi hjá TR
  • Vandi barns þarf að uppfylla ákveðin fötlunar- og sjúkdómsskilyrði

 Foreldragreiðslur skiptast í þrjá greiðsluflokka og gilda mismunandi reglur um þá:

  1. Greiðslur til foreldra sem eru á vinnumarkaði/Launatengdar greiðslur
  2. Greiðslur til foreldra í námi
  3. Almenn fjárhagsaðstoð/Grunngreiðslur

Sótt er um foreldragreiðslur rafrænt á Mínum síðum.

Fylgiskjöl með umsókn:

  • Vottorð læknis sem veitir barninu þjónustu þar sem fram kemur greining, meðferð og umönnunarþörf 
  • Greinargerð frá fagaðila, t.d. félagsráðgjafa ef við á
  • Staðfesting sjúkra- eða styrktarsjóðs um að það hafi nýtt sér réttindi sín þar
  • Foreldrar á vinnumarkaði þurfa að skila staðfestingu vinnuveitanda um að foreldri hafi lagt niður störf og fullar launagreiðslur hafi fallið niður. Jafnframt staðfestingu um starfstímabil og starfshlutfall. Sjálfstætt starfandi einstaklingar þurfa að skila staðfestingu frá Ríkisskattstjóra um að reiknað endurgjald hafi verið lagt niður
  • Í ákveðnum tilfellum þarf að skila staðfestingu frá fæðingarorlofssjóði eða vinnumálastofnun 
  • Námsmenn þurfa að skila vottorði frá skóla um að foreldri hafi gert hlé á námi og vottorði um fyrri námsvist
  • Tekjuáætlun

Spurt og svarað

Grunngreiðslur eru greiðslur til foreldra sem ekki eru í námi né í vinnu þegar barn greinist. Þær geta líka verið samþykktar í framhaldi af launatengdum greiðslum eða greiðslum til foreldra í námi.

  • Ef foreldri fær grunngreiðslur eru jafnframt greiddar barnagreiðslur með hverju barni á heimilinu sem er yngra en 18 ára
  • Ef einstætt foreldri hefur tvö eða fleiri börn á framfæri sínu eru greiddar sérstakar viðbótargreiðslur vegna þeirra
  • Foreldri getur haldið greiðslum í allt að 3 mánuði eftir bata barns sem hefur verið veikt í meira en 2 ár
  • Við andlát barns er heimilt að halda áfram greiðslum í allt að 3 mánuði

Foreldri sem hefur verið á vinnumarkaði getur átt rétt á launatengdum greiðslum, í allt að 6 mánuði, ef störf eru lögð niður vegna alvarlegra veikinda eða fötlunar barns.

  • Foreldri þarf að hafa verið samfellt í 6 mánuði á innlendum vinnumarkaði og lagt niður störf í 14 daga eða lengur
  • Foreldri þarf að hafa verið í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli. Starfshlutfall sjálfstætt starfandi einstaklings miðast við greiðslu tryggingagjalds
  • Foreldri þarf að hafa fullnýtt rétt sinn frá atvinnurekanda og sjúkrasjóði stéttarfélags
  • Greitt er 80% af meðaltali launa á 12 mánaða tímabili, sem lýkur 2 mánuðum fyrir greiningardag barns.
  • Foreldri getur átt rétt á hlutfallsgreiðslum ef foreldri leggur niður störf að hluta vegna veikinda barns eða kemur aftur í hlutastarf eftir veikindi barns
  • Foreldri greiðir að lágmarki 4% í lífeyrissjóð og ríkissjóður greiðir 8% mótframlag
  • Foreldri getur óskað eftir að greiða í séreignarsjóð og stéttarfélag

Við andlát barns er heimilt að halda greiðslum í allt að einn mánuð frá andláti hafi það tímabil áður verið samþykkt.

Foreldri í námi getur átt rétt á greiðslum, í allt að 3 mánuði, ef hlé er gert á námi vegna alvarlegra veikinda eða fötlunar barns.  

  • Foreldri þarf að hafa verið í 75-100% námi í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum áður en barnið greindist og hafa átt lögheimili á Íslandi á þeim tíma
  • Foreldri þarf að gera hlé á námi í eina önn eða lengur í viðkomandi skóla til að annast barnið
  • Greitt er eftir á þegar önn viðkomandi skóla er lokið og staðfest að foreldri hafi gert hlé á námi

Við andlát barns er heimilt að halda greiðslum í allt að einn mánuð frá andláti hafi það tímabil áður verið samþykkt.

 

Foreldri sem fer með forsjá eða sameiginlega forsjá barns getur átt rétt á greiðslum. Einnig maki/sambúðarmaki/samvistarmaki foreldris sem fer með forsjá ef fyrir liggur samþykki beggja kynforeldra og hjónaband/sambúð hefur staðið yfir lengur en eitt ár.

Báðir foreldrar geta ekki fengið greiðslur á sama tíma. Undantekning er ef barn er á líknandi meðferð.

Foreldragreiðslur eru tekjutengdar og eru greiddar eftir á, í lok mánaðar. Mismunandi er hvort að greiðslurnar eru tengdar vinnu, námi eða eru grunngreiðslur. Foreldri sem hefur stundað vinnu árið á undan getur fengið 80% af sínum launum en grunngreiðslur og námstengdar foreldragreiðslur eru ekki reiknaðar út frá atvinnutekjum á þennan hátt.

Greiðslurnar eru skattskyldar.

Upphæðir hér á eftir fyrir árið 2023 miðast við greiðslur fyrir skatt á mánuði: 

  • Hámarksupphæð foreldragreiðslna vegna vinnu getur verið allt að 1.003.004 kr. 
  • Greiðsla til foreldris í námi: 281.335 kr. 
  • Grunngreiðsla: 281.335 kr. 
  • Barnagreiðslur: 41.392 kr. 
  • Sérstök barnagreiðsla (2 börn): 11.984 kr.
  • Sérstök barnagreiðsla (3 börn): 31.156 kr. 
  • Frítekjumark: 96.951 kr.

Reglugerð 1435/2022 um fjárhæðir greiðslna og frítekjumarks fyrir árið 2023 skv. lögum nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna

Foreldri sem fer með forsjá eða sameiginlega forsjá barns getur átt rétt á greiðslum. Einnig maki/sambúðarmaki/samvistarmaki foreldris sem fer með forsjá ef fyrir liggur samþykki beggja kynforeldra og hjónaband/sambúð hefur staðið yfir lengur en eitt ár.

 

Foreldragreiðslur má ekki greiða á sama tíma og: Greiðslur skv. lögum um almannatryggingar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, atvinnuleysisbætur eða fæðingarorlof. 

Foreldragreiðslur má greiða á sama tíma og umönnunargreiðslur