Foreldragreiðslur eru greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Markmið greiðslnanna er að tryggja foreldrum fjárhagsaðstoð þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna veikinda eða fötlunar barna sinna. Um sameiginlegan rétt foreldra er að ræða. Foreldri og barn verða að eiga lögheimili hér á landi þann tíma sem greitt er. Hámarks gildistími mats getur verið eitt ár.
Helstu skilyrði fyrir foreldragreiðslum samkvæmt lögum nr. 22/2006 eru að:
- Barn geti ekki verið í vistun á vegum opinberra aðila, t.d. á leikskóla eða í skóla
- Foreldri eigi ekki rétt á greiðslum úr sjúkrasjóði stéttarfélags, atvinnuleysisbótum, fæðingarorlofs eða - styrks og sé ekki lífeyrisþegi hjá TR
- Vandi barns þarf að uppfylla ákveðin fötlunar- og sjúkdómsskilyrði
Foreldragreiðslur skiptast í þrjá greiðsluflokka og gilda mismunandi reglur um þá:
- Greiðslur til foreldra sem eru á vinnumarkaði/Launatengdar greiðslur
- Greiðslur til foreldra í námi
- Almenn fjárhagsaðstoð/Grunngreiðslur
Sótt er um foreldragreiðslur rafrænt á Mínum síðum.
Fylgiskjöl með umsókn:
- Vottorð læknis sem veitir barninu þjónustu þar sem fram kemur greining, meðferð og umönnunarþörf
- Greinargerð frá fagaðila, t.d. félagsráðgjafa ef við á
- Staðfesting sjúkra- eða styrktarsjóðs um að það hafi nýtt sér réttindi sín þar
- Foreldrar á vinnumarkaði þurfa að skila staðfestingu vinnuveitanda um að foreldri hafi lagt niður störf og fullar launagreiðslur hafi fallið niður. Jafnframt staðfestingu um starfstímabil og starfshlutfall. Sjálfstætt starfandi einstaklingar þurfa að skila staðfestingu frá Ríkisskattstjóra um að reiknað endurgjald hafi verið lagt niður
- Í ákveðnum tilfellum þarf að skila staðfestingu frá fæðingarorlofssjóði eða vinnumálastofnun
- Námsmenn þurfa að skila vottorði frá skóla um að foreldri hafi gert hlé á námi og vottorði um fyrri námsvist
- Tekjuáætlun