Endurhæfingaráætlun þarf ávallt að taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem veldur skertri starfshæfni hans. Leitast skal við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni.
Endurhæfingaráætlun þarf að vera unnin af heilbrigðismenntuðum fagaðila, svo sem lækni, sjúkraþjálfara, félagsráðgjafa, sálfræðingi, iðjuþjálfara eða hjúkrunarfræðingi í samvinnu við umsækjanda um endurhæfingarlífeyri hverju sinni eða fagaðila sem er viðurkenndur á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar samkvæmt samningum starfsendurhæfingarsjóða.
Endurhæfingaráætlun þarf að byggja á eftirfarandi upplýsingum:
- Langtíma- og skammtímamarkmiðum endurhæfingar
- Greinargóðri lýsingu á innihaldi endurhæfingar
- Hve oft í viku/mánuði lögð er stund á endurhæfingarúrræði sem lagt er upp með í áætlun og hverjir eru fagaðilar
- Tímalengd endurhæfingartímabils sem sótt er um
- Fyrri endurhæfing ef við á
- Hvenær gert er ráð fyrir endurkomu á vinnumarkað
Tryggingastofnun skal hafa eftirlit með því að greiðsluþegi sinni endurhæfingu sinni, að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt sbr. 8. gr. reglugerðar 661/2020.
Ef sótt er um framlengingu á greiðslum endurhæfingarlífeyris skal leggja fram greinargerð um framvindu endurhæfingar á áður samþykktu greiðslutímabili en í því felst útlistun á því hvernig endurhæfing á því endurhæfingartímabili sem er að ljúka hafi gengið og hvort fyrri áætlun hafi staðist eins og lagt var upp með í upphafi.
Ef upplýsingar um framvindu er ábótavant getur umsækjandi fengið bréf þar sem óskað er eftir ítarlegri framvindu og/eða staðfestingu frá fagaðilum á mætingum í endurhæfingarúrræði.
Greiðsluþega og umsjónaraðila endurhæfingaráætlunar er skylt að tilkynna Tryggingastofnun tafarlaust um það ef rof verður á endurhæfingu eða slíkt rof er fyrirséð, t.d. ef aðstæður breytast á endurhæfingartímabilinu, hvort heldur er tímabundið eða varanlega.
Ef endurhæfingu lýkur fyrir áætlaðan tíma eða greiðsluþegi sinnir ekki endurhæfingu samkvæmt endurhæfingaráætlun þarf að tilkynna Tryggingastofnun um það.