Hálfur ellilífeyrir

Hægt er að sækja um hálfan ellilífeyri hjá TR samhliða greiðslu hálfs lífeyris frá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

Skilyrði:

  • Að vera 67 ára eða eldri en hægt er að sækja um frá 65 ára gegn varanlegri lækkun greiðslna.
  • Að umsækjandi hafi sótt um og fengið samþykkta umsókn um hálfan lífeyri hjá öllum skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum sem hann hefur áunnið sér rétt í. Á þetta bæði við um innlenda og erlenda lífeyrissjóði.
  • Ef skyldubundinn atvinnutengdur lífeyrissjóður býður almennt ekki upp á töku hálfs lífeyris þá þarf að skila staðfestingu þess efnis frá lífeyrissjóðnum. Það hefur ekki áhrif á rétt til hálfs ellilífeyris frá TR.
  • Að vera virkur á vinnumarkaði en þó ekki í meira en í 50% starfshlutfalli að meðaltali.

 

Fylgiskjöl með umsókn

  • Tekjuáætlun þar sem fram koma áætlaðar atvinnu-, lífeyrissjóðs- og fjármagnstekjur, eftir því sem við á.
  • Staðfesting frá atvinnurekanda á starfshlutfalli.
  • Yfirlit úr Lífeyrisgáttinni yfir alla lífeyrissjóði sem þú hefur áunnið þér réttindi í.
    • Til að nálgast yfirlitið ferðu á heimasíðu hjá þeim lífeyrissjóði sem þú greiðir í núna eða hefur greitt í. Skráir þig svo inn á sjóðfélagavef þinn með rafrænum skilríkjum.
  • Staðfesting þar sem fram kemur frá og með hvaða tíma greiðslur hálfs lífeyris hefjast, frá þeim lífeyrissjóðum sem fram koma á yfirliti úr Lífeyrisgátt.

Hægt er að skila inn öllum gögnum í gegnum Mínar síður.

Spurt og svarað

Umsækjandi um hálfan ellilífeyri nýtur sama réttar til annarra greiðslna og aðrir ellilífeyrisþegar. Þannig getur umsækjandi átt rétt á hálfri heimilisuppbót. Auk þess getur hann átt rétt á barnalífeyri, uppbót vegna reksturs bifreiðar eða öðrum uppbótum ef hann uppfyllir skilyrði þeirra greiðslna.

Sjá má upplýsingar um upphæði hálfs lífeyris og fjárhæða í almannatryggingakerfinu hér.

Þegar um er að ræða hálfan ellilífeyri er almennt frítekjumark 3.900.000 kr. á ársgrundvelli eða 325.000 kr. á mánuði. Frítekjumarkið gildir fyrir allar tekjutegundir. Auk þess er sérstakt frítekjumark á atvinnutekjur sem er 2.400.000 kr. á ársgrundvelli eða 200.000 kr. á mánuði.

Tekjur umfram frítekjumörk lækka greiðslur hálfs ellilífeyris um 45% og lækkunarhlutfall heimilisuppbótar er 11,9% líkt og hjá öðrum ellilífeyrisþegum.

Sjá nánari upplýsingar um upphæðir sem notaðar eru þegar ellilífeyrir og tengdar greiðslur eru reiknaðar hér.

Ávallt er heimilt að skipta af hálfum ellilífeyri yfir á fullan ellilífeyri.

Ef einstaklingur hefur hinsvegar hafið töku á fullum ellilífeyri almannatrygginga er ekki hægt að skipta yfir á hálfan ellilífeyri.

Gerð er krafa um að umsækjandi um hálfan ellilífeyri frá Tryggingastofnun sé virkur á vinnumarkaði. Starfshlutfall hans má ekki vera hærra en 50% til að réttur sé til staðar.

Litið er á meðaltal starfshlutfalls umsækjanda á því tímabili sem sótt er um hálfan ellilífeyri. Þannig getur umsækjandi unnið meira en 50% starfshlutfall suma mánuði og minna starfshlutfall aðra mánuði, svo lengi sem að meðaltal starfshlutfalls hans á greiðslutímabili hálfs lífeyris fari ekki yfir 50%. Þetta fyrirkomulag gefur einstaklingum með árstíðabundna atvinnu meira svigrúm til töku ellilífeyris.

Reglur um snemmtöku og frestun ellilífeyris eru samskonar og gilda um hefðbundinn ellilífeyri. Réttindi lækka eða hækka á tryggingafræðilegum grunni.

Áhrif snemmtöku eða frestunar eru þó með þeim hætti að einungis sá hluti sem greiddur er verður fyrir áhrifum. Þannig myndi aðili sem hæfi töku hálfs ellilífeyris 65 ára eiga 87,76% greiðslurétt á þeim hluta sem tekinn er frá þeim tíma. Ef viðkomandi hæfi töku fulls ellilífeyris við 67 ára aldur þá myndi hinn helmingurinn bætast óskertur við réttindi hans.

Hægt er að draga umsókn um hálfan ellilífeyri til baka innan 30 daga eftir að niðurstaða um réttindi hjá TR liggur fyrir. Þannig getur fólk metið hvort það vill byrja að fá greiðslur eða njóta frestunar og fá þá hækkun á greiðslum. Ef greiðsla hefur átt sér stað þarf að endurgreiða TR að fullu ef umsókn er dregin til baka. Tilkynnt er um afturköllun umsóknar á Mínum síðum undir „Umsóknir“.