Dvöl lífeyrisþega á stofnun getur haft áhrif á greiðslur frá TR. Þá getur verið mismunandi eftir því hvort um er að ræða varanlega dvöl á dvalar- eða hjúkrunarheimili eða dvöl á sjúkrastofnun eins og t.d. sjúkrahúsi. Mikilvægt er að láta Tryggingastofnun vita ef viðkomandi útskrifast af sjúkrahúsi, dvalar- eða hjúkrunarheimili, svo lífeyrisgreiðslur geti hafist að nýju.
- Þegar lífeyrisþegi flytur á dvalar- eða hjúkrunarheimili falla niður bætur frá TR frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir flutning
- Greiðslur falla hins vegar niður ef dvöl á sjúkrastofnun nær samtals 6 mánuðum (180 dögum) á undanförnum 12 mánuðum. Þar af verður að vera samfelld dvöl í 30 daga við lok tímabilsins
Viðkomandi getur í báðum tilvikum átt rétt á ráðstöfunarfé frá TR ef tekjur eru undir viðmiðunarmörkum. Þeir sem eiga ekki rétt á ráðstöfunarfé vegna tekna gætu þurft að taka þátt í dvalarkostnaði sínum.
Ráðstöfunarfé
Greiðsluþegar sem hafa tekjur undir 132.368 kr. á mánuði geta átt rétt á ráðstöfunarfé frá TR. Ekki þarf að sækja sérstaklega um ráðstöfunarfé.
- Ráðstöfunarfé er að hámarki 86.039 kr. á mánuði
- Reiknað er út frá fyrirliggjandi tekjuáætlun hjá TR
- Allar skattskyldar tekjur, þ.m.t. lífeyrissjóðs- og fjármagnstekjur, hafa áhrif
- Greiðslur frá TR, félagsmálastofnun og sveitarfélögum hafa ekki áhrif
Kostnaðarþátttaka
Greiðsluþegar sem eiga ekki rétt á ráðstöfunarfé gætu þurft að taka þátt í dvalarkostnaði sínum. Kostnaðarhlutdeild í dvalarkostnaði er tekjutengd og er reiknuð út frá fyrirliggjandi tekjuáætlun hjá Tryggingastofnun.
- Greiðsluþegi tekur þátt í dvalarkostnaði ef heildartekjur eru yfir 107.165 kr. eftir skatt á mánuði
- Kostnaðarhlutdeild verður hæst 475.451 kr. á mánuði. Ef tekjur ná 582.616 kr. eftir skatt á mánuði er sú fjárhæð greidd.
- Byrjað er að greiða kostnaðarhlutdeild í dvalarkostnaði eftir að greiðslur frá Tryggingastofnun falla niður.
Framlenging lífeyrisgreiðslna
Hægt er að sækja um framlengingu lífeyrisgreiðslna eftir að þær falla niður vegna dvalar á sjúkrastofnun og búsetu á dvalar- og hjúkrunarheimili. Framlengt er að hámarki um 3 mánuði í einu. Heimilt er að framlengja greiðslur að hámarki um alls 6 mánuði. Félagsráðgjafar og aðrir starfsmenn á viðkomandi stofnun veita aðstoð við að sækja um framlengingu.
- Skila þarf inn gögnum til staðfestingar á nauðsyn framlengingarinnar og að ótvíræður kostnaður sé til staðar
Dagpeningar utan stofnunar
Heimilt er að greiða dagpeninga fyrir hvern sólarhring sem dvalist er utan stofnunar án þess að útskrifast.
- Til að eiga rétt á dagpeningum utan stofnunar þarf umsækjandi að fá greitt ráðstöfunarfé frá Tryggingastofnun
- Greitt er að hámarki fyrir 8 sólarhringa á mánuði
- Árið 2022 eru dagpeningar utan stofnunar 4.179 kr. pr./sólarhring
- Starfsmenn viðkomandi stofnunar sækja um dagpeninga fyrir umsækjanda