65 ára +

Þeir sem eru 65 ára og eldri og hafa átt lögheimili á Íslandi í minnst þrjú ár gætu átt einhvern rétt á ellilífeyri. Sækja þarf um ellilífeyri en almennt myndast réttur við 67 ára aldur. Í reiknivél er hægt að slá inn mismunandi forsendur og sjá niðurstöðu. 

Hægt er að fresta töku ellilífeyris en við það hækka greiðslurnar fyrir hvern mánuð sem greiðslum er frestað. Einnig er hægt að flýta töku ellilífeyris frá 65 ára aldri en þá lækka greiðslurnar fyrir hvern mánuð sem greiðslum er flýtt.

Þeir sem eru að hefja töku ellilífeyris eru hvattir til að kynna sér vel þá kosti sem í boði eru.

Fylgiskjöl með umsókn

Þegar sótt er um ellilífeyri þarf að skila inn umsókn en auk þess þarf að skila inn eftirtöldum gögnum:

  • Staðfesting á að sótt hafi verið um hjá lífeyrissjóði
  • Tekjuáætlun
  • Upplýsingum um nýtingu skattkorts (hægt að skrá inni á Mínum síðum)

Hægt er að skila inn öllum gögnum í gegnum Mínar síður.

Tekjuáætlun

  • Greiðslur eru tekjutengdar og því nauðsynlegt að skila tekjuáætlun. Hægt er að búa til tekjuáætlun eða breyta gildandi tekjuáætlun á Mínum síðum. Mikilvægt er að lægfæra tekjuáætlun verði breytingar á tekjum. Allar skattskyldar tekjur, fyrir skatt, eru skráðar á tekjuáætlunina:

    • Atvinnutekjur, lífeyrissjóður, tekjur frá stéttarfélagi og fjármagnstekjur eins og t.d. vextir af innistæðum, leigutekjur o.s.frv.
    • Greiðslur viðbótarlífeyrissparnaðar og vegna félagslegrar aðstoðar hafa ekki áhrif
    • Allar upphæðir þurfa að vera heildartekjur fyrir skatt (brúttó)
    • Settar eru inn áætlaðar tekjur frá þeim tíma sem sótt er um og til ársloka
    • Hægt er að óska eftir mánaðaskiptingu atvinnutekna, sjá nánar hér.
    • Ef ástæða þykir áskilur TR sér rétt til að kalla eftir gögnum til stuðnings nýjum/breyttum tekjuupplýsingum og eftir atvikum fresta nýjum útreikningi greiðslna þar til gögnin berast. Þetta er gert í samræmi við lög um almannatryggingar, sjá hér.

Spurt og svarað

Upplýsingar um fjárhæðir má finna hér.

Greiðslur eru tekjutengdar og því nauðsynlegt að skila inn tekjuáætlun.

Tekjuáætlun er skilað inn og breytt á Mínum síðum.

Ef tekjur breytast er nauðsynlegt að breyta tekjuáætluninni til þess að greiðslur séu réttar. Þá eru greiðslur reiknaðar upp á nýtt. Eftir að tekjuáætlun hefur verið breytt er hægt að fá bráðabirgðaútreikning.

Þegar staðfest skattframtal liggur fyrir, eru tekjutengdar greiðslur endurreiknaðar. Þannig er tryggt að greiðslur séu réttar.

Ekki þarf að sækja sérstaklega um ellilífeyri ef einstaklingur er með örorkulífeyri. 

Hægt er að óska eftir að fá greitt einu sinni á ári. Þá eru réttindin reiknuð út þegar staðfest skattframtal liggur fyrir og eru greidd út í einu lagi. Með því að fá greitt einu sinni á ári fær viðkomandi nákvæmlega það sem hann á rétt á og losnar til dæmis við að fá á sig kröfu við uppgjör vegna ofgreiddra greiðslna. Sótt er um á Mínum síðum 

Endurreikningur á greiðslum fer fram einu sinni á ári þegar tekjur frá fyrra ári liggja fyrir í staðfestu skattframtali.

Í endurreikningi er gerður samanburður á síðustu tekjuáætlun sem greiðslur voru reiknaðar út frá og tekjum samkvæmt skattframtali.

Ef tekjur hafa verið vanáætlaðar í tekjuáætlun myndast krafa við endurreikning greiðslna og ef tekjur hafa verið ofáætlaðar í tekjuáætlun myndast inneign.

Endurreikningur tryggir að allir fái rétt greitt frá TR.

Tekjur maka hafa almennt ekki áhrif á lífeyri frá TR. Hér er þá átt við tekjur t.d. frá atvinnu eða lífeyrissjóði.

Fjármagnstekjur eru hins vegar sameiginlegar með hjónum/sambúðarfólki og því hafa fjármagnstekjur maka áhrif á greiðslur frá TR. Heildar fjármagnstekjum er skipt til helminga á milli hjóna/sambúðarfólks.

Allar skattskyldar tekjur hafa áhrif á greiðslur ellilífeyris og eru þar með taldar tekjur frá lífeyrissjóðum og vinnu, fjármagnstekjur o.s.frv. Tekjur viðbótarlífeyrissparnaðar og félagsleg aðstoð hafa þó ekki áhrif.

Mismunandi frítekjumark er á tekjum eftir því hvaðan þær koma:

  • Atvinnutekjur mega vera 2.400.000 kr. á ári án þess að hafa áhrif á greiðslur.
  • Allar aðrar tekjur, s.s. frá lífeyrissjóðum og fjármagnstekjur, mega vera samanlagt 300.000 kr. á ári án þess að hafa áhrif.

45 % tekna umfram frítekjumörk dragast frá greiðslum ellilífeyris og 11,9% frá greiðslum heimilisuppbótar.

  • Mikilvægt er að lagfæra tekjuáætlunina ef tekjur breytast. Þetta er gert til þess að greiðslur frá TR séu sem réttastar.

Fyrsta árið sem byrjað er á ellilífeyri og tengdum greiðslum, hafa eingöngu þær tekjur sem aflað er eftir að greiðslur hefjast hjá TR áhrif. Tekjur sem aflað er fyrir tíma lífeyristöku hafa engin áhrif á réttindi.

Dæmi: Ef greiðslur hefjast 1. maí 2022 hafa eingöngu tekjur sem aflað er eftir þann tíma áhrif.

Hægt er að draga umsókn um ellilífeyri til baka innan 30 daga eftir að niðurstaða um réttindi hjá TR liggur fyrir. Ef greiðsla hefur átt sér stað og umsókn er dregin til baka þarf að endurgreiða TR.

Tilkynnt er um afturköllun umsóknar á Mínum síðum.

  • Ellilífeyrir er tekjutengdur, greiðslur falla niður ef samanlagðar heildartekjur fara yfir tekjumörk. Hægt er sjá útreikning í reiknivél og upphæðir undir Fjárhæðir.
  • Ef flutt er erlendis til landa utan EES, Bandaríkjanna og Kanada.
  • Við andlát.
  • Þegar dvalið er á sjúkrahúsi 180 daga eða lengur á síðustu 12 mánuðum en þó þarf viðkomandi að hafa dvalið samfellt á sjúkrahúsi í 30 daga í lok tímabilsins.
  • Þegar viðkomandi fær vistunarmat og fer á dvalar- eða hjúkrunarheimili falla greiðslur niður 1. næsta mánaðar.

TR aðstoðar þá sem hafa búið innan EES landa að sækja réttindi sín. Umsóknin er á Mínum síðum og gildir umsóknin fyrir greiðslur almannatrygginga í viðkomandi landi. Umsóknarferli getur tekið allt að sex mánuðum.

Mismunandi reglur gilda milli landa um hvenær er hægt að byrja að taka ellilífeyri. Greiðslur frá erlendum lífeyrissjóðum hafa sömu áhrif á réttindi eins og greiðslur frá íslenskum lífeyrissjóðum.

Þú sækir um hjá viðeigandi stofnun í búsetulandinu sem áframsendir umsókn til Tryggingastofnunar. TR áframsendir einnig umsóknina til lífeyrissjóða á Íslandi þar sem möguleg réttindi eru.

Full réttindi miðast við samtals 40 ára búsetu á Íslandi á tímabilinu 16-67 ára. Þegar búsetutími á Íslandi er styttri reiknast réttindin hlutfallslega miðað við búsetu. Ef búsetutími hjóna er mislangur er heimilt að miða réttindi beggja við búsetutíma þess sem hefur haft lengri búsetu á Íslandi.

Dæmi: Einstaklingur bjó erlendis í 20 ár á aldrinum 16-67 ára. Tíminn frá 16-67 ára eru 51 ár. Hann hefur þá búið á Íslandi í 31 ár af 51 ári á tímabilinu. 31 ár deilt með 40 árum gera 77,5% búsetuhlutfall á Íslandi. Hann fær því 77,5% af fullum ellilífeyri.

TR aðstoðar þá sem hafa starfað innan EES-landa að sækja um ellilífeyri frá viðkomandi landi. Umsókn um lífeyri frá öðru EES-landi er að finna á Mínum síðum eða tr.is.

  • Afpláni lífeyrisþegi refsingu í fangelsi falla niður allar greiðslur TR til hans.
  • Sé lífeyrisþegi úrskurðaður í gæsluvarðhald falla niður allar greiðslur TR til hans eftir fjögurra mánaða samfellt gæsluvarðhald.
  • Þegar bætur hafa verið felldar niður er heimilt að greiða ráðstöfunarfé í samræmi við 8. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar. Hægt er að sækja um ráðstöfunarfé hjá TR.
  • Þegar fangi lýkur afplánun á áfangaheimili, t.d. Vernd eða með rafrænu eftirliti, hefjast lífeyrisgreiðslur að nýju svo framarlega að réttur sé enn til staðar. Fari fangi aftur í fangelsi falla greiðslur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar.
  • Hafi lífeyrisþegi verið meðlagsskyldur og TR hefur ráðstafað barnalífeyri upp í meðlag þá heldur sú ráðstöfun áfram svo lengi að réttur sé enn til staðar.
  • Heimilt er að greiða maka einstaklings sem sætir gæsluvarðhaldi eða er í fangelsi, barnalífeyri með börnum hans svo framarlega að vistin hafi varað í a.m.k. þrjá mánuði.

Ef lífeyrisþegi er meðlagsskyldur með barni getur viðkomandi fengið barnalífeyri sem er þá notaður til þess að greiða meðlagið. Barnalífeyrinn fer þannig beint til Innheimtustofnunar sveitarfélaga en ekki til lífeyrisþegans.

Mögulegt er að sækja um greiðslur aftur í tímann um allt að tvö ár. Ef það er gert verður að hafa í huga hvaða áhrif flýting og frestun ellilífeyris hefur. Ekki er hægt að fá hækkun á ellilífeyri fyrir sama tímabil og sótt er um afturvirkt fyrir.

Til dæmis ef viðkomandi er 69 ára er hægt að sækja um ellilífeyri frá þeim tíma og fá þá varanlega hækkun á ellilífeyri fyrir þessi tvö ár sem eru liðin. Annar möguleiki er að sækja um afturvirkar greiðslur frá 67 ára aldri og fá þær greiðslur í eingreiðslu. Þá fær hann ekki varanlega hækkun á ellilífeyri.