65 ára +

Þeir sem eru 65 ára og eldri og hafa búið á Íslandi í minnst þrjú ár eiga einhvern rétt á ellilífeyri. Í reiknivél er hægt að slá inn mismunandi forsendur og sjá niðurstöðu. Þeir sem eru að hefja töku ellilífeyris eru hvattir til að kynna sér vel þá kosti sem í boði eru. Í þessu myndbandi eru allar helstu upplýsingar fyrir þá sem eru að hefja töku ellilífeyris. 

Fylgiskjöl með umsókn

Þegar sótt er um ellilífeyri þarf að skila inn umsókn en auk þess þarf að skila inn eftirtöldum gögnum:

  • Staðfesting á að sótt hafi verið um hjá lífeyrissjóðum
  • Tekjuáætlun
  • Upplýsingar um nýtingu skattkorts

Hægt er að skila inn öllum gögnum í gegnum Mínar síður.

Tekjuáætlun

Tekjuáætlun er forsenda greiðslna frá TR. Til að lífeyrisþegar fái réttar greiðslur er mikilvægt að skila inn tekjuáætlun. Allar skattskyldar tekjur eru skráðar í tekjuáætlunina:

  • Atvinnutekjur, lífeyrissjóður, tekjur frá stéttarfélagi og fjármagnstekjur eins og t.d. vextir af innistæðum, leigutekjur o.s.frv.
  • Greiðslur viðbótarlífeyrissparnaðar og vegna félagslegrar aðstoðar hafa ekki áhrif
  • Allar upphæðir þurfa að vera heildartekjur fyrir skatt (brúttó)
  • Settar eru inn áætlaðar tekjur frá þeim tíma sem sótt er um og til ársloka
  • Hægt er að óska eftir mánaðaskiptingu atvinnutekna, sjá nánar hér.

Spurt og svarað

Upplýsingar um fjárhæðir má finna hér.

Greiðslur eru tekjutengdar og því nauðsynlegt að skila inn tekjuáætlun. 

Tekjuáætlun er skilað inn og breytt á mínum síðum. 

Ef tekjur breytast er nauðsynlegt að breyta tekjuáætluninni til þess að greiðslur séu réttar. Þá eru greiðslur reiknaðar upp á nýtt. Eftir að tekjuáætlun hefur verið breytt er hægt að fá bráðabirgðaútreikning. 

Þegar staðfest skattframtal liggur fyrir, eru tekjutengdar greiðslur endurreiknaðar. Þannig er tryggt að greiðslur séu réttar. 

Ekki þarf að sækja um ellilífeyri ef einstaklingur er með örorkulífeyri. 

Hægt er að óska eftir að fá greitt einu sinni á ári. Þá eru réttindin reiknuð út þegar staðfest skattframtal liggur fyrir og eru greidd út í einu lagi. Með því að fá greitt einu sinni á ári fær viðkomandi nákvæmlega það sem hann á rétt á og losnar til dæmis við að fá á sig kröfu við uppgjör vegna ofgreiddra greiðslna. Sótt er um á Mínum síðum 

Endurreikningur á greiðslum fer fram einu sinni á ári þegar tekjur frá fyrra ári liggja fyrir í staðfestu skattframtali.

Í endurreikningi er gerður samanburður á síðustu tekjuáætlun sem greiðslur voru reiknaðar út frá og tekjum samkvæmt skattframtali.

Ef tekjur hafa verið vanáætlaðar í tekjuáætlun myndast krafa við endurreikning greiðslna og ef tekjur hafa verið ofáætlaðar í tekjuáætlun myndast inneign.

Endurreikningur tryggir að allir fái rétt greitt frá TR. 

Tekjur maka hafa almennt ekki áhrif á lífeyri frá TR. Hér er þá átt við tekjur t.d. frá atvinnu eða lífeyrissjóði.

Fjármagnstekjur eru hins vegar sameiginlegar með hjónum/sambúðarfólki og því hafa fjármagnstekjur maka áhrif á greiðslur frá TR. Heildar fjármagnstekjum er skipt til helminga á milli hjóna/sambúðarfólks.