Vefstefna TR

Almennt

TR heyrir undir félagsmálaráðuneytið og er ein stærsta þjónustustofnun landsins. Stofnunin setur ekki lög eða reglugerðir og ákvarðar ekki fjárhæðir bóta. Hlutverk TR er að framfylgja lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni langveikra barna auk þess að sinna öðrum verkefnum sem stofnuninni eru falin hverju sinni.

Framtíðarsýn TR er að veita framúrskarandi þjónustu, sýna fagmennsku í starfsháttum og vera framsækinn vinnustaður. Á vef TR er framtíðarsýn stofnunarinnar höfð að leiðarljósi þar sem veittar eru leiðbeiningar og upplýsingar á fjölbreyttan hátt. Viðskiptavinir TR geta annast sín mál á öruggu svæði á Mínum síðum og vefsíða TR mætir margvíslegum þörfum viðskiptavina. Gæta skal sérstaklega að því að persónuverndarsjónarmið séu lögð til grundvallar allri miðlun og farið sé að persónuverndarlögum.

Hvaða vefi erum við með?

TR miðlar upplýsingum í gegnum vefmiðla og samfélagsmiðla. Stofnunin heldur úti vefnum www.tr.is, þar sem veittar eru upplýsingar um almannatryggingakerfið og innskráningarsíðu Mínar síður þar sem viðskiptavinir geta sótt um, séð stöðu mála, sent inn gögn, skoðað rafræn skjöl og haft samband á öruggu svæði. Þá heldur TR einnig úti Fésbókarsíðu sem notuð er til að koma upplýsingum á framfæri. Innan stofnunarinnar og meðal starfsfólks er notast við Workplace síðu sem er gagnvirk upplýsingasíða fyrir starfsfólk.

Ábyrgð og eigendur verkefna

 • Vefstjóri Tryggingastofnunar ber ábyrgð á vefstefnu TR og að henni sé framfylgt.
 • Vefstjóri ber ábyrgð á uppbyggingu veftrés aðalvefsvæðis TR , vefsvæða Minna síðna, Workplace og fésbókarsíðu.
 • Vefstjóri ber ábyrgð á úthlutun aðgangsréttinda á vefi TR í vefumsjónarkerfi.
 • Upplýsingasvið TR ber ábyrgð á rekstri vefmiðlara og gagnagrunna vefjanna og tryggir að þeir séu stöðugt verndaðir með öryggisbúnaði sem nauðsynlegur þykir hverju sinni.

Gildi TR

Gildi TR eru traust, samvinna og metnaður. Út frá þeim er unnið á vefjum TR. Við vinnum stöðugt að því markmiði að vera með faglegar og áreiðanlegar upplýsingar á vefnum. Með samvinnu þvert á deildir er ólíkum þörfum viðskiptavinarins mætt. Við þróun og viðhald á vefnum sýnum við metnað með því að sýna frumkvæði og beina kröftum okkar og þekkingu að því að gera sífellt betur.

Markmið vefs

Markmið vefsins tr.is er að þjónusta viðskiptavini stofnunarinnar þannig að þeir geti með einföldum hætti fundið þær upplýsingar um þá þjónustu sem stofnunin veitir.

Stefnt er að því að allar umsóknir verði rafrænar og að viðskiptavinir geti afgreitt sig sjálfir á vefnum og Mínum síðum, miða við að þetta gerist á árinu 2021 Langtímamarkmið er svo að TR taki eingöngu við umsóknum á Mínum síðum. Vefurinn tr.is er upplýsingasíða þar sem viðskiptavinir geta fundið upplýsingar um öll þau réttindi sem mögulegt er að sækja. Einnig að viðkomandi sjái hver réttur hans er og hvaða greiðslum hann/hún á mögulega rétt á. Markmið vefsins er einnig að fólk geti afgreitt sig sjálft á Mínum síðum þegar sækja þarf um réttindi eða hafa samband við stofnunina. Með einföldum upplýsingum, leiðbeiningum og rafrænum umsóknum tryggir stofnunin að viðskiptavinir geti í raun haft samband hvenær sem er og þannig bætt upplýsingaflæði og dregið úr kostnaði.

 • Að vera alhliða upplýsingaveita um starfsemi Tryggingastofnunar og þau réttindi sem viðskiptavinir geta sótt um á grundvelli laga um almannatryggingar og félagslega aðstoð
 • Að bjóða upp á notendavæna og góða rafræna þjónustu á vefnum sem einkennist af faglegum upplýsingum, þekkingu, ábyrgð og metnaði.
 • Að vefurinn sé snjallsímavænn.
 • Að fækka innhringingum og heimsóknum í þjónustumiðstöð og hjá umboðum um allt land með fjölbreyttum þjónustuleiðum.
 • Að allar upplýsingar séu ævinlega uppfærðar og réttar og lögð áhersla á vandað upplýsingaflæði.
 • Gæta skal að tæknilegum útfærslum fyrir skjálesara og önnur slík hjálpartól og þannig leitast við að allir hafi aðgang að upplýsingum á vefjum.
 • Að allar umsóknir verði á Mínum síðum.
 • Að allir getir sótt um á Mínum síðum.
 • Að koma á framfæri upplýsingum til fjölmiðla.
 • Að umsóknir verði rafrænar – hætta að nota pappírseyðublöð.

Markhópar

Viðskiptavinir TR

 • Ellilífeyrisþegar
 • Örorkulífeyrisþegar
 • Endurhæfingarlífeyrisþegar
 • Meðlagsþegar og greiðendur – einstæðir foreldrar
 • Foreldrar langveikra barna
 • Ungmenni á aldrinum 18-20 ára sem eiga rétt á framlagi vegna náms
 • Lífeyrisþegar sem búsettir eru erlendis

Hagsmunaaðilar:

 • Almenningur
 • Viðskiptavinir TR
 • Fjölmiðlar
 • Félagsmálaráðuneytið og stjórnarráðið
 • Sveitarfélög
 • Starfsfólk TR
 • Umboðsmenn TR úti á landi
 • Hagsmunasamtök eldri borgara
 • Hagsmunasamtök öryrkja
 • Stjórnmálasamtök og stjórnmálafólk
 • Aðrar stofnanir og fyrirtæki

Efnisstefna 

 • Efni á vefjum skal sniðið að markhópum í orðalagi og innihaldi
 • Efni er reglulega uppfært til að halda vefjum lifandi, réttum og áhugaverðum
 • Fréttir birtar reglulega á tr.is og öðrum vefjum
 • Tilkynningar um viðburði og annað á vegum TR birt á vef og fésbók.

Samþykkt á fundi framkvæmdaráðs 3. september 2020