Tilgangur og gildissvið
Að stuðla að jafnri stöðu, jafnri virðingu og jafnrétti kynja innan stofnunarinnar. Jafnréttisstefnuna skal endurskoða á þriggja ára fresti.
Jafnréttisstefna
Jafnréttisstefna Tryggingastofnunar (TR) stuðlar að jafnri stöðu, jafnri virðingu og jafnrétti kynja innan stofnunarinnar. Jafnréttisstefnan byggir á lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu nr. 86/2018.
Til að framfylgja jafnréttisstefnunni hefur TR sett upp jafnréttisáætlun til að ná jafnréttismarkmiðum sínum en þau eru eftirfarandi:
-
Laus störf eru auglýst óháð kyni
Atvinnuauglýsingar stofnunarinnar eru ókynbundnar og höfða til allra kynja. Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið þegar ákveðið er hvern skuli ráða í starf hverju sinni. Stjórnendum er skylt lögum samkvæmt að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynja innan TR. Þegar ráðið er í ný störf skal m.a. tekið tillit til kynjahlutfalls.
TR starfar eftir vottuðu jafnlaunakerfi skv. ÍST 85:2012. Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað og að fyllsta jafnréttis sé gætt. Kynjum skulu greidd jöfn laun og skulu þau njóta sömu kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf og hvers konar frekari þóknana, beinna og óbeinna, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða öðrum hætti. Stjórnendur TR skuldbinda sig til að vinna að stöðugum umbótum, eftirliti og viðbrögðum í samræmi við kröfur jafnlaunastefnu stofnunarinnar. Komi í ljós launamunur á jafn verðmætum og sambærilegum störfum skal hann leiðréttur. Stefna um launajafnrétti skal kynnt árlega fyrir öllum starfsmönnum.
-
Starfsþjálfun og endurmenntun
Kynin skulu njóta sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar og hafa jöfn tækifæri til að sækja námskeið og fræðslu til þess að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings öðrum störfum. Þess skal gætt að mismuna ekki starfsfólki eftir kynferði við úthlutun verkefna, við tilfærslu í starfi, við að axla ábyrgð eða við önnur tækifæri sem almenn starfsþróun býður upp á.
-
Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs
TR býður starfsfólki sveigjanlegan vinnutíma og hlutastörf að ákveðnu marki svo að samræma megi sem best einkalíf, fjölskylduábyrgð og starf. Öll kyn eru hvött til þess að nýta sér fæðingarorlof og eru foreldrar hvattir til að skipta með sér heimaveru vegna veikinda barna á jafnréttisgrundvelli.
-
Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni
Kynbundin og kynferðisleg áreitni er ekki liðin hjá TR. Stjórnendur skulu grípa undantekningarlaust til viðeigandi aðgerða ef starfsmaður verður fyrir slíku áreiti. Allt starfsfólk TR ber sameiginlega ábyrgð á að slík áreitni eigi sér ekki stað. Viðbragðáætlun gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi má finna á hér.