Spurt og svarað vegna endurreiknings
Endurreikningur tekjutengdra greiðslna felst í því að reikna réttindi út frá tekjum lífeyrisþega af staðfestu skattframtali hans. Réttindi samkvæmt endurreikningi eru svo borin saman við það sem greitt hafði verið á árinu. Niðurstaðan leiðir í ljós hvort lífeyrisþegi fékk rétt greitt, vangreitt eða ofgreitt. Ofgreiðsla myndar skuld hjá lífeyrisþega sem fer í innheimtu en vangreiðsla inneign sem er greidd út.
Endurreikningurinn tryggir að allir fái greidd réttindi í samræmi við raunverulegar tekjur viðkomandi réttindaárs.
Inneign lífeyrisþega úr uppgjöri er greidd út 1. júní.
Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga eru tekjutengdar og fer upphæð þeirra eftir þeim tekjum sem koma til samhliða greiðslum TR.
Almenna reglan er sú að lífeyrisréttindi eru reiknuð á ársgrundvelli. Ef að tekjur á tekjuáætlun eru hækkaðar á miðju ári þá er allt árið reiknað að nýju, þar á meðal mánuðirnir sem þegar hafa verið greiddir. Skuld getur myndast vegna þeirra mánaða þegar tekjuáætlun er breytt.
Skuldir sem myndast vegna breytinga á tekjuáætlun eru ekki innheimtar fyrr en að uppgjör ársins hefur farið fram.
Endurreikningur lífeyrisréttinda felur oft í sér breytingu á réttindum viðkomandi árs og hefur því áhrif á tekjuskattsstofn til hækkunar eða lækkunar. Eftir að endurreikningur hefur farið fram tilkynnir TR um breytinguna til RSK með nýjum launamiða og ber RSK að tilkynna lífeyrisþegum um breytinguna.
Tryggingastofnun tekur við fyrirspurnum vegna breyttra réttinda hjá stofnuninni og staðgreiðslufrádrátt en RSK tekur við fyrirspurnum um breytta álagningu ef um hana er að ræða.
Ef talið er að endurreikningurinn sé ekki réttur er hægt að andmæla honum. Rökstyðja þarf þau andmæli og senda með gögn sem sýna fram á að forsendur í endurreikningnum séu ekki réttar.
Andmæli fresta innheimtu skulda á meðan á afgreiðslu þeirra stendur en hafa ekki áhrif á útgreiðslu inneigna.
Mælt er með að senda inn andmæli á öruggu svæði undir erindi á Mínum síðum.
Við endurreikning eru tekjur samkvæmt skattframtali viðkomandi árs notaðar. Ef tekjurnar sem þar koma fram tilheyra öðrum árum er hægt að óska eftir tilfærslu tekna á milli ára og endurupptöku skattframtals hjá RSK.
Ekki er öruggt að tilfærsla tekna á milli ára hafi í för með sér hærri lífeyrisréttindi frá TR og það getur jafnvel leitt til lægri réttinda.
Ef óskað er eftir endurupptöku skattframtals hjá RSK þarf að senda TR staðfestingu á að það hafi verið gert svo hægt sé að fresta innheimtu skulda.
Hafa þarf í huga að tilfærsla tekna á milli ára getur haft í för með sér breytingu á áður álögðum opinberum gjöldum og vaxta- og barnabótum hjá RSK. Þá getur hún haft áhrif á greiðslur annarra réttinda sem byggja á upplýsingum úr skattframtali. Það er ekki á forræði TR að svara fyrir önnur réttindi.
Fjármagnstekjur teljast sameiginlegar tekjur hjóna og sambúðarfólks. TR er skylt að nota þær tekjur til útreiknings á lífeyrisréttindum. Helmingur fjármagnstekna hjóna og sambúðarfólks hefur áhrif á útreikning hjá hvoru fyrir sig.
Undantekning gildir ef óvígð sambúð hefur varað styttra en eitt ár og aðilar eiga ekki barn saman. Þá er hægt að óska eftir ársaðlögun vegna fjármagnstekna.
Þegar hjúskap eða sambúð er slitið er heimilt að undanskilja fjármagnstekjur að hluta eða öllu leyti við endurreikning tímabilsins eftir að hjúskaparstaða breyttist.
Ef fjármagnstekjur fyrrverandi maka eftir skilnað voru notaðar til lækkunar á réttindum við endurreikning þarf að senda inn andmæli til TR. Það er gert á Mínum síðum undir erindi.
Almenna reglan er sú að allar tekjur ársins eiga að liggja til grundvallar útreikningi lífeyrisgreiðslna.
Hins vegar er heimilt þegar einstaklingur leggur inn nýja umsókn um lífeyri að miða útreikning lífeyris eingöngu við þær tekjur sem áætlað er að aflað verði eftir að lífeyrisréttur stofnast.
Unnt er að beita heimildinni um nýja umsókn um örorkulífeyri/endurhæfingarlífeyri og um nýja umsókn um ellilífeyri, sé ekki um samfellt greiðslutímabil að ræða.
Heimildinni verður eingöngu beitt einu sinni um útreikning ellilífeyris. Þegar um endurhæfingar-eða örorkulífeyrisþega er að ræða telst umsókn vera ný ef liðin eru meira en tvö ár frá því að síðasta örorkumat rann út eða viðkomandi einstaklingur var í virkri endurhæfingu og/eða fékk greiðslur frá Tryggingastofnun.
Staðgreiðsluskyldar tekjur: Byggt er á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um er að ræða tekjur sem eru staðgreiðsluskyldar. Eingöngu er litið til tekna þeirra mánaða sem lífeyrisréttur var til staðar.
Aðrar tekjur en staðgreiðsluskyldar: Almenna reglan er sú að aðrar tekjur en staðgreiðsluskyldar tekjur skulu hafa áhrif á endurreikning lífeyrisréttinda í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem réttur var til staðar.
Almennt hafa greiddir styrkir áhrif á lífeyrisréttindi til lækkunar.
Ef heimilt er að skrá kostnað á móti styrk á skattframtali lækkar það vægi styrksins á lífeyrisréttindi um sem nemur kostnaðinum. Ef vafi leikur á um heimild til að færa kostnað á móti styrkjum á skattframtali er rétt að leita aðstoðar hjá RSK.
Skattskyldar greiðslur frá tryggingafélögum koma til lækkunar á lífeyrisréttindum.
Erlendar tekjur koma ósundurliðaðar á skattframtölum til TR og því getur stofnunin ekki ákvarðað réttar greiðslur þeirra lífeyrisþega sem hafa án aðkomu þeirra sjálfra.
Við fyrsta endurreikning lífeyrisþega þar sem fram koma erlendar tekjur á skattframtali er kallað eftir upplýsingum og gögnum um eðli þeirra tekna, þ.e. hvort þær teljist til lífeyrissjóðsgreiðslna, grunnlífeyris eða atvinnutekna. Ef gögn berast um eðli teknanna eru þær tekjuforsendur notaðar við útreikning greiðslna. Ef engin gögn berast teljast tekjurnar til annarra tekna og hafa því hærra vægi gagnvart lífeyrisréttindum en þær tekjur sem nefndar eru hér að framan.
Líklegt er að það tengist sérstakri uppbót til framfærslu sem greidd er örorkulífeyrisþegum. Engin frítekjumörk gilda um þær greiðslur og allar tekjur hafa áhrif á útreikning óháð tegund. Sérstöku uppbótinni er ætlað að tryggja ákveðna lágmarks framfærslu þeirra sem eiga örorkulífeyrisrétt hjá TR.
Dæmi 1: Ef örorkulífeyrisþegi tekur út séreignasparnað að fjárhæð 100.000 kr. þá lækkar það sérstöku uppbótina um 65.000 kr.
Dæmi 2: Ef örorkulífeyrisþegi fær dagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags að fjárhæð 50.000 kr. þá lækkar það sérstöku uppbótina um 32.500 kr.
Einnig er mögulegt að tekjur fari yfir þau mörk sem heimilt er að hafa til að fá greiddan grunnlífeyri sem veldur því að tengd réttindi eins og tekjutrygging og heimilisuppbót falla niður.
TR er heimilt, að ósk lífeyrisþega, að dreifa fjármagnstekjum sem leystar hafa verið út í einu lagi á allt að 10 ár. Ekki er heimilt að dreifa slíkum tekjum oftar en einu sinni á hverju tímabili.
Skoða þarf vel hvort það borgi sig að dreifa fjármagnstekjum fram í tímann en dreifingin orsakar í mörgum tilvikum lægri lífeyrisrétt til framtíðar. Það getur hins vegar reynst erfitt að endurgreiða háa skuld úr uppgjöri sem myndast vegna eingreiðslu fjármagnstekna og því þarf að vega og meta kosti þess að dreifa fjármagnstekjunum með hliðsjón af því.
Við mat á því hvort það borgi sig að dreifa fjármagnstekjum er hægt að styðjast við reiknivél lífeyris eða með því að hafa samband við TR.
Dreifing getur ekki náð yfir lengra tímabil en sem nemur gildistíma örorkumats hjá örorkulífeyrisþegum nema matið nái til 67 ára aldurs.
Hægt er að sækja um dreifingu fjármagnstekna með því að fylla út eyðublað og senda til TR. Ef umsækjandi er í hjúskap þurfa báðir aðilar að sækja um.
Við útreikning örorkulífeyris og tekjutryggingar er heimilt að hækka tekjuviðmið þeirra lífeyrisþega sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta vegna örorku að frádregnum áætluðum örorkulífeyri og tekjutryggingu til framtíðar frá TR.
Óska þarf sérstaklega eftir útreikningi samkvæmt reglugerð nr. 661/2010. Umsækjandi skal leggja fram gögn um greiðslu skaðabóta og frádrátt vegna áætlaðs örorkulífeyris og tekjutryggingar.
TR lítur svo á að tekjur samkvæmt skattframtali andlátsárs teljist til tekna hins látna. Ef aðrar tekjur en staðgreiðsluskyldar tekjur teljast til tekna dánarbús en ekki hins látna þarf að senda gögn til TR sem styðja það. Endurreikningur verður þá endurskoðaður.
Staðgreiðsluskyldar tekjur: Byggt er á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um er að ræða tekjur sem eru staðgreiðsluskyldar. Eingöngu er litið til tekna þeirra mánaða sem lífeyrisréttur var fyrir hendi í.
Aðrar tekjur en staðgreiðsluskyldar: Almenna reglan er sú að aðrar tekjur en staðgreiðsluskyldar tekjur skulu hafa áhrif á endurreikning lífeyrisréttinda í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem réttur var fyrir hendi í.
Samkvæmt lögum verður við andlát einstaklings til sjálfstæður lögaðili, dánarbú, sem tekur tímabundið við öllum réttindum og skyldum hins látna.
Erfingjum ber að hlutast til um skipti dánarbús hjá sýslumönnum innan fjögurra mánaða frá andláti. Ábyrgð á skuldbindingum búsins fer eftir því hvernig skiptum er háttað.
Skiptum getur almennt lokið með ferns konar hætti:
- Einkaskiptum: Erfingjar gangast undir óskipta ábyrgð á skuldbindingum búsins.
- Eftirlifandi maki fær leyfi til setu í óskiptu búi: Eftirlifandi maki ber ábyrgð á skuldbindingum búsins.
- Opinberum skiptum: Skiptastjóri er skipaður af héraðsdómi og fer með forræði búsins. Erfingjar geta ábyrgst skuldbindingar þess.
- Sýslumaður lýsir yfir eignaleysi dánarbúsins: Enginn er í ábyrgð fyrir skuldum búsins.
Mikilvægt er að umboðsmenn dánarbúa eða erfingjar skili skattframtali vegna óendurreiknaðra ára til RSK svo endurreikningur TR byggi á réttum forsendum.
Dánarbú og erfingjar eiga rétt á að fá inneign greidda.
Ef ekki er búið að loka bankareikningi hins látna er inneign greidd inn á þann reikning nema umboðsmaður dánarbús hafi óskað eftir öðru fyrirkomulagi. Hafi reikningi verið lokað þarf umboðsmaður að koma upplýsingum um nýjan bankareikning til TR.
Ef enginn er umboðsmaður eða ef skiptum er lokið þurfa allir erfingjar að gefa einum umboð til að taka við inneign.
Eyðublað - Umboð vegna dánarbús
Inneignir úr uppgjörum eru undantekningarlaust teknar upp í eldri skuldir hjá stofnuninni í samræmi við reglur um skuldajöfnun.
Meginreglan er sú að endurgreiða á ofgreiddan lífeyri á 12 mánuðum. Ef endurgreiðsla með þeim hætti reynist lífeyrisþegum íþyngjandi er mögulegt að semja um endurgreiðslu eða sækja um niðurfellingu.
Semja um endurgreiðslu
Hægt er að óska eftir því að fá lengri endurgreiðslutíma. Einfaldast er að gera það á Mínum síðum.
Skylt er að líta til fjárhags- og félagslegra aðstæðna lífeyrisþega við mat á lengd endurgreiðslutíma.
Almennt er ekki hægt að semja um frest á endurgreiðslu.
Sækja um niðurfellingu
Mögulegt er að sækja um niðurfellingu á skuld sem kemur til vegna endurreiknings að hluta eða öllu leyti. Heimildin er undantekning frá meginreglunni um að skuld skuli innheimta og því eru ströng skilyrði sem þarf að uppfylla svo fallist verði á niðurfellingu.
Einkum er horft til þess hvort fjárhags- og félagslegar aðstæður séu sérstaklega slæmar og ástæðu skuldarinnar, þ.e. hvers vegna hún stofnaðist.
Til að sækja um niðurfellingu ofgreiðsluskuldar þarf að senda erindi um það eða fylla út umsóknareyðublað og senda til TR.
Umsókn um niðurfellingu ofgreiðslukröfu
Í tilfelli þeirra lífeyrisþega sem eru með erlendar tekjur samhliða lífeyrisgreiðslum stofnunarinnar þá er gengi þeirra gjaldmiðla reiknað með tvennum hætti. Annars vegar eru réttindi reiknuð eftir svokölluðu Á-gengi (áætluðu gengi) og hins vegar er árið gert upp á grundvelli U-gengi (uppgjörs gengi). Munurinn á þessu gengi er eftirfarandi:
Á-gengi (áætlað gengi) er það gengi sem notað er þegar réttindi ársins eru reiknuð út og greitt er eftir á árinu. En áætlaða gengið er spágengi fyrir hið komandi ár, byggt á upplýsingum frá Seðlabanka Íslands um stöðu gengis undir lok ársins á undan. Þ.e. að áætlaða gengi ársins 2022 byggir á upplýsingum um gengi gjaldmiðla undir lok árs 2021.
U-gengi (uppgjörs gengi) er það gengi sem notað er þegar réttindi ársins eru gerð upp. En þar er horft til miðgengis (meðaltal sölu- og kaupgengis) ársins fyrir viðkomandi gjaldmiðil þegar horft er á allt árið skv. upplýsingum frá Seðlabanka Íslands.
Í uppgjörsbréfinu eru upplýsingar um báðar þessar gengisskráningar.