Uppgjör

Endurreikningur greiðslna 

Lífeyrisréttindi eru tekjutengd og eru réttindi reiknuð út frá áætluðum árstekjum í tekjuáætlunum sem lífeyrisþegar bera ábyrgð á að hafa sem nákvæmastar.  Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur ársins liggja fyrir í staðfestum skattframtölum frá Ríkisskattstjóra eru lífeyrisréttindi endurreiknuð á grundvelli þeirra.

Niðurstaða endurreikningsins leiðir í ljós hvort lífeyrisþegi hafi fengið rétt greitt, vangreitt eða greitt umfram rétt. Endurreikningur er birtur í maí hjá flestum lífeyrisþegum.

Tilkynning um niðurstöðu

Lífeyrisþegar geta skoðað niðurstöður endurreikningsins á Mínum síðum í maí ár hvert.

Næstu daga eftir það verður einnig send tilkynning í pósti til þeirra sem þurfa að greiða til baka vegna ofgreiðslu nema þeir séu virkir notendur á Mínum síðum og til dánarbúa. Hægt er að óska eftir að fá niðurstöðuna senda í pósti með því að hafa samband við TR.

Þeir sem ekki fá niðurstöðu í maí eru lífeyrisþegar búsettir erlendis, þeir sem hafa skilað skattframtölum seint og þeir sem ekki hafa skilað skattframtölum. Þessi hópur fær sína niðurstöðu í september. 

Vangreiðsla

Hafi lífeyrisþegi fengið vangreitt mun inneign sem myndast vegna þess verða greidd í júní. 

Ofgreiðsla

Hafi lífeyrisþegi fengið greitt umfram rétt myndar það skuld sem kemur til innheimtu í september. Miðað er við að skuldin verði greidd á 12 mánuðum en ef það reynist lífeyrisþegum íþyngjandi er hægt að semja um lengri tíma.

Hægt er að senda inn beiðni um endurgreiðslusamning á Mínum síðum.

Mögulegt er að sækja um niðurfellingu á skuld vegna endurreiknings að hluta eða öllu leyti. Heimildin er undantekning frá meginreglunni um að skuld skuli innheimta og því eru ströng skilyrði sem þarf að uppfylla svo fallist verði á niðurfellingu. Einkum er horft til þess hvort fjárhags- og félagslegar aðstæður séu sérstaklega slæmar og ástæðu skuldarinnar. 

Til að sækja um niðurfellingu er hægt að fylla út eyðublað og senda til TR

Andmæli

Ef talið er að endurreikningurinn sé ekki réttur er hægt að andmæla honum. Rökstyðja þarf þau andmæli og senda með gögn sem sýna fram á að forsendur í endurreikningum séu ekki réttar.

Frestur til að andmæla niðurstöðu endurreiknings er þrír mánuðir eftir að niðurstaða er birt. Andmæli fresta innheimtu skulda á meðan á afgreiðslu þeirra stendur en hafa ekki áhrif á útgreiðslu inneigna. 

Kærumál

Hægt er að kæra niðurstöðu endurreiknings til úrskurðarnefndar velferðarmála.

TR hefur heimild til að fella niður kröfur að hluta eða öllu leyti ef sérstaklega stendur á og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Umsóknir um niðurfellingar verða að vera skriflegar og vel rökstuddar.

Lög og reglugerðir

Mælt er fyrir um endurreikning lífeyrisréttinda í 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 og í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning,endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags ásamt breytingareglugerðum.