Innheimta

Meginreglur innheimtu

Samkvæmt meginreglu ber að endurgreiða kröfur vegna ofgreiðslna innan 12 mánaða frá því að þær stofnast. Ef hægt er að draga af mánaðarlegum greiðslum þá er það gert. Heimilt er að draga allt að 20% af mánaðarlegum greiðslum upp í kröfur þó að lágmarki 3.000 kr.

Ef endurgreiðsla samkvæmt meginreglunni er þungbær er hægt að óska eftir greiðsludreifingu til lengri tíma. Við mat á slíkri beiðni er tekið mið af upplýsingum um heildartekjur, eignastöðu og aðrar aðstæður.

Endurgreiðsla

Endurgreiðsluleiðir eru þrjár en einnig er mögulegt að fara blandaðar leiðir.

1. Leggja inn á reikning TR

Ávallt er hægt að greiða kröfu upp með eingreiðslu eða greiða inn á kröfu með millifærslu á reikning:

Reikningsnúmer: 0001-26-30057

Kennitala TR: 660269-2669

IBAN - IS43 0001 2603 0057 6602 6926 69.

SWIFT - SISLISRE

Þegar greitt er fyrir annan aðila þarf kennitala þess sem greitt er fyrir að fylgja greiðslunni. Ef greitt er úr heimabanka skal einnig skrá nafn og kennitölu þess sem greitt er fyrir í skýringarsvæði og senda kvittun í tölvupósti úr heimabanka á netfangið fjarvarsla@tr.is.

2. Frádráttur af greiðslum

TR hefur heimild til skuldajöfnunar sem í felst að draga allt að 20% af mánaðarlegum greiðslum upp í kröfu. Hægt er að semja um aðra greiðsludreifingu. Beiðni um greiðsludreifingu er hægt að senda inn á Mínum síðum eða á netfangið innheimta@tr.is.

3. Mánaðarlegir greiðsluseðlar í heimabanka

Þegar frádrætti af greiðslum verður ekki komið við þá er hægt að semja um að fá mánaðarlega greiðsluseðla í heimabanka. Beiðni um greiðsludreifingu er hægt að senda inn á Mínum síðum eða til innheimta@tr.is. Viðskiptavinir geta óskað eftir því að fá senda greiðsluseðla í pósti með því að senda beiðni á sama netfang.

Greiðslufrestur

Innheimtu er almennt ekki frestað. Sjá nánar í starfsreglum TR um innheimtu.

Vanskil

Verði boðum um að greiða eða hafa samband til að semja um endurgreiðslu ekki sinnt, mun TR senda kröfu í frekari innheimtu hjá Innheimtumiðstöð sýslumannsins á Blönduósi.

Vextir

Hafi krafa vegna ofgreiddra bóta ekki verið greidd á 12 mánuðum frá því að hún stofnaðist er Tryggingastofnun skylt að reikna 5,5% ársvexti á eftirstöðvar kröfu.
Vextir eru ekki reiknaðir ef samningur um endurgreiðslu liggur fyrir og viðkomandi stendur við greiðsluskyldu sína samkvæmt honum.

Dánarbú

Dánarbú tekur við öllum fjárhagslegum skyldum hins látna við andlát hans. Almenna reglan er sú að kröfur eru innheimtar hjá dánarbúum. Undantekningar má finna í lögum um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991.

Umsókn um niðurfellingu krafna

Tryggingastofnun hefur heimild til að fella niður uppgjörskröfur að hluta eða öllu leyti ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Einkum er litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna greiðsluþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn við mat á heimild til niðurfellingar. Umsóknir um niðurfellingar verða að vera skriflegar og vel rökstuddar.

Umsókn um niðurfellingu ofgreiðslukröfu

Álag

Komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur ber Tryggingastofnun að bæta 15% álagi ofan á þá fjárhæð sem ofgreidd var.

Starfsreglur um innheimtu

Tryggingastofnun hefur sett sér starfsreglur um innheimtu og er hægt að nálgast þær hér: Starfsreglur TR um innheimtu.