Tryggingastofnun

Eftirlit

Eitt af hlutverkum Tryggingastofnunar er að standa vörð um íslenska velferðarkerfið og verja það misnotkun.

Tryggingastofnun (TR) sannreynir réttmæti greiðslna með eftirliti. Við eftirlit er farið yfir upplýsingar um umsækjanda eða greiðsluþega og ef við á hefur TR heimild til að afla frekari gagna.

Umsóknir

Sækja þarf um allar greiðslur til TR og byggjast greiðslur á að umsækjandi uppfylli tiltekin skilyrði. Í umsókn þarf að veita nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að ákvarða hvort réttur til greiðslu sé fyrir hendi. 

Upplýsingaskylda

Umsækjanda eða greiðsluþega er skylt að taka þátt í meðferð máls vegna eftirlits með því að veita upplýsingar sem óskað er eftir og nauðsynlegar eru. Greiðsluþega er skylt að tilkynna TR um breytingar á tekjum og ef breytingar verða á högum, t.d. þegar sambúð hefst, við sambúðarslit, hjúskaparstofnun, hjúskaparslit og flutning lögheimilis. TR getur kallað umsækjanda eða greiðsluþega í viðtal til þess að fá nánari upplýsingar. Ef TR getur ekki afgreitt mál vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum þá kemur ekki til greiðslna fyrr en úr því er bætt. 

Vinnsla persónuupplýsinga 

TR upplýsir umsækjanda eða greiðsluþega um heimildir stofnunarinnar til vinnslu persónuupplýsinga. TR þarf að afla nægilegra upplýsinga áður en ákvörðun um bótarétt er tekin. Stofnanir, stjórnvöld og aðrir aðilar sem eru skyldugir til að veita TR upplýsingar til að unnt sé að framfylgja almannatryggingalögunum eru taldar upp sem hér segir: Skattyfirvöld, Þjóðskrá Íslands, Innheimtustofnun sveitarfélaga, Fangelsismálastofnun, Útlendingastofnun, ríkislögreglustjóri, Samgöngustofa, lífeyrissjóðir, sjúkrastofnanir, dvalar- og hjúkrunarheimili, sveitarfélög, Lánasjóður Íslenskra námsmanna, viðurkenndar menntastofnanir innan hins almenna menntakerfis og skólar á háskólastigi. Þá skulu TR og Sjúkratryggingar Íslands á sama hátt skiptast á upplýsingum um mat á örorku og öðrum nauðsynlegum upplýsingum*. 

Upplýsingar frá þriðja aðila

Komi fram rökstuddur grunur um að greitt sé á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga getur TR frestað greiðslum tímabundið á meðan málið er kannað. Við rannsókn mála er stofnuninni heimilt að afla upplýsinga frá þriðja aðila eins og t.d. leikskóla eða vinnuveitanda. 

Ofgreiðslur - vangreiðslur 

Þegar greitt er umfram réttindi er ofgreiðslan almennt dregin frá greiðslum eða viðkomandi krafinn endurgreiðslu með öðrum hætti. Vangreiðslur eru greiddar út. Ef um mistök TR er að ræða greiðast 5% vextir á vangreiðslu. 

Viðurlög - endurgreiðsla með álagi 

Reynist móttakandi greiðslna uppvís að sviksamlegu atferli eru greiðslur stöðvaðar og er TR heimilt að krefjast endurgreiðslu á ofgreiðslu með 15% álagi. 

Persónuvernd 

Með vísan til laga um persónuvernd þá varðveitir TR ekki lengur en nauðsynlegt er upplýsingar sem aflað hefur verið vegna eftirlits. 

Lög nr. 8/2014 um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999. 


*Skattyfirvöld: Upplýsingar um tekjur vegna útreiknings á tekjutengdum greiðslum. 

Þjóðskrá: Upplýsingar um lögheimili og aðstæður sem geta haft áhrif á réttindi. Innheimtustofnun sveitarfélaga: Upplýsingar um meðlag. Fangelsismálastofnun: Upplýsingar um afplánun. 

Útlendingastofnun: Upplýsingar um það hvort umsækjandi er með dvalarleyfi og sé tryggður á Íslandi. 

Ríkislögreglustjóri: Aðstoð við rannsókn mála. 

Samgöngustofa:Upplýsingar úr bifreiðaskrá. 

Lífeyrissjóðir: Upplýsingar um greiðslur í tengslum við útreikning á réttindum. 

Sjúkrastofnanir: Upplýsingar um dvöl. Dvalar- og hjúkrunarheimili: Upplýsingar um dvöl. 

Sveitarfélög: Upplýsingar um greiðslur, leigusamninga o.fl.

Lánasjóður íslenskra námsmanna: Upplýsingar sem staðfesta nám erlendis og lánstímabil.

Viðurkenndum menntastofnanir: Upplýsingar um skólavist. 

Sjúkratryggingar Íslands: Upplýsingar um mat á slysaörorku, lyfjakostnað, sjúkra- og slysadagpeninga o.fl. 

Síða yfirfarin/breytt 14.01.2015