Útfylling einstakra tekjuliða

1. Atvinnutekjur

1.1 Launatekjur

Hér eru færðar heildartekjur launa, að meðtalinni yfirvinnu og orlofi og hvers konar greiðslum, svo sem fæðingarorlofsgreiðslum, dagpeningum, bifreiðastyrkjum og öðrum hlunnindum. Bifreiðastyrki og dagpeninga skal tilgreina að frádregnum kostnaði sem heimilt er að draga frá á skattframtali. Heildartekjur eru tekjur fyrir skatta og áður en iðgjöld í lífeyrissjóð eru dregin frá. 

1.2. Reiknað endurgjald

Hér eru færð reiknuð laun vegna eigin atvinnurekstrar. 

1.3. Atvinnuleysisbætur

Hér er færð áætluð upphæð atvinnuleysisbóta. 

1.4. Hagnaður af atvinnustarfsemi

Hér er færður áætlaður rekstrarhagnaður ársins af eigin atvinnustarfsemi. 

1.5. Iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar

Hér færast inn áætlaðar skyldubundnar greiðslur í lífeyrissjóði. Að hámarki má skrá 4% af launum, reiknuðu endurgjaldi og atvinnuleysisbótum skv. liðum 1.1, 1.2 og 1.3. 

1.6 Iðgjald í séreignasjóð til frádráttar

Hér færast áætlaðar greiðslur í séreignasjóði, sem heimilt er að draga frá skattstofni. Að hámarki má skrá 4% af launum, reiknuðu endurgjaldi og atvinnuleysisbótum skv. liðum 1.1, 1.2 og 1.3. 

2. Lífeyrissjóðstekjur

2.1. Lífeyrissjóðstekjur

Með lífeyrissjóðstekjum er átt við tekjur úr lífeyrissjóðum vegna ellilífeyris, örorkulífeyris, makalífeyris og barnalífeyris. Hér eru færðar heildartekjur ársins úr lífeyrissjóðum, eða samanlagðar tekjur úr öllum lífeyrissjóðum. 

2.2 Séreignasparnaður

Hér er reitur fyrir úttekt á séreignasparnaði. Séreignasparnaður hefur ekki áhrif á útreikning á örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót, tekjutryggingu og heimilisuppbót. 
Það getur verið að á forprentuðum tekjuáætlunum sé séreignasparnaður samanlagður með öðrum lífeyrissjóðsgreiðslum og þarf þá að draga hann frá til aðgreiningar frá öðrum lífeyrissjóðsgreiðslum.

2.3. Uppbót á ellilífeyri frá RSK

Hér er reitur fyrir uppbót á lífeyri sem Ríkisskattstjóri greiðir þeim sem hafa lífeyrissjóðsgreiðslur undir tilteknu lágmarki. 

3. Aðrar tekjur

3.1. Aðrar tekjur

Hér eru færðar aðrar tekjur en þær sem nefndar eru hér að ofan, svo sem greiðslur úr sjúkrasjóðum, styrkir frá stéttarfélögum og greiðslur frá tryggingafélögum. 

3.2. Áætlaðar tekjur frá RSK

Ef tekjuáætlun TR byggir á áætluðum tekjustofni skattyfirvalda birtist sú fjárhæð í þessum reit. Þeirri tölu er aðeins hægt að breyta ef fyrir liggur staðfesting á að framtali hafi verið skilað vegna fyrra árs. 

4. Fjármagnstekjur

Með fjármagnstekjum er alltaf átt við heildartekjur ársins. Fjármagnstekjur hjóna og sambúðarfólks eru skráðar sameiginlega. Athuga þarf að fjármagnstekjur eru í eðli sínu sveiflukenndar, einkum þegar um er að ræða sölu hlutabréfa eða annarra eigna. Því þarf að vanda til áætlunar þessara tekna. Einnig er mikilvægt að láta Tryggingastofnun vita ef síðar verða breytingar á fjármagnstekjum frá því sem nú er áætlað. Athugið að skrá skal heildarupphæð fjármagnstekna þrátt fyrir að aðeins helmingur þeirra komi til útreiknings greiðslna. 

4.1 Vextir og verðbætur

Hér eru færðir áætlaðir vextir og verðbætur af bankainnistæðum. 

4.2. Arður

Hér er færður áætlaður arður af hlutabréfum og stofnsjóðum samvinnufélaga. 

4.3 Leigutekjur

Hér eru færðar hvers konar leigutekjur sem áætlað er að muni falla til á árinu. 

4.4. Söluhagnaður

Hér er færður allur áætlaður skattskyldur söluhagnaður. Reynslan sýnir að algengt er að þessi tekjuliður sé vanáætlaður og það valdi ofgreiðslu lífeyrisgreiðslna. Því er mikilvægt að huga vel að útfyllingu þessa reits.