Nánar um útfyllingu tekjuáætlunar

Hægt er að gera nýja tekjuáætlun og breyta gildandi áætlun inni á Mínum síðum. Mjög mikilvægt er að lagfæra tekjuáætlunina verði breytingar á tekjum.

Allar upphæðir sem skráðar eru í tekjuáætlun eru heildartekjur fyrir staðgreiðslu skatta (brúttó).

  • Skráðar eru heildartekjur ársins frá þeim tíma sem greiðslur hefjast.
  • Heildarupphæð er skráð en ekki mánaðartekjur.
  • Ef tekna er aflað hluta úr ári þarf að skrá heildarupphæð þeirra inn á tekjuáætlunina.
  • Ef búast má við tekjum síðar á árinu, t.d. frá lífeyrissjóðum eða fjármagnstekjum, er best að áætla þær tekjur strax og skrá inn á tekjuáætlunina. Hægt er að skila inn nýrri tekjuáætlun þegar endanlegar tölur liggja fyrir.
  • Fjármagnstekjur eru sameiginlegar tekjur hjóna og á að skrá heildarupphæð þeirra. 
  • Aðrar tekjur maka hafa ekki áhrif á greiðslur frá TR.
  • Skrá þarf erlendar tekjur ef um þær er að ræða. Þá þarf að skrá heildarupphæð, þá mynt sem greitt er í og hvaðan greiðslurnar koma, t.d. Pensionsmyndigheten eða Udbetaling Danmark.

Ef ástæða þykir áskilur TR sér rétt til að kalla eftir gögnum til stuðnings nýjum/breyttum tekjuupplýsingum og eftir atvikum fresta nýjum útreikningi greiðslna þar til gögnin berast. Þetta er gert í samræmi við 52. grein laga um almannatryggingar nr. 100/2007.