Lífeyrisþegar geta óskað eftir mánaðaskiptingu atvinnutekna við útreikning lífeyrisréttinda, en í því felst að atvinnutekjur hafa eingöngu áhrif á lífeyrisréttindi þess mánaðar sem atvinnutekna er aflað. Mánaðaskipting atvinnutekna getur einkum nýst þeim lífeyrisþegum sem fá óreglulegar atvinnutekjur yfir árið umfram frítekjumark atvinnutekna. Hægt er að óska eftir mánaðaskiptingu atvinnutekna frá 1. janúar 2020 og er það gert á Mínum síðum TR.
Athygli er vakin á því að aðrar tekjur en atvinnutekjur eins og t.d. lífeyrissjóðstekjur falla ekki undir þetta ákvæði.
Jafndreifing atvinnutekna verður áfram almenna reglan við útreikning lífeyrisréttinda. Við uppgjör tekjuársins verður sú reikniregla látin gilda sem betur kemur út hverju sinni, óháð því hvort óskað hafi verið eftir mánaðaskiptingu atvinnutekna eða ekki.
Reglur um mánaðaskiptingu atvinnutekna má finna í 12. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum og í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags með síðari breytingum.
Tekjuáætlun
Hægt er að gera nýja tekjuáætlun eða breyta gildandi tekjuáætlun á Mínum síðum. Mikilvægt er að lagfæra tekjuáætlun verði breytingar á tekjum. Sérstaklega þarf að merkja við mánaðaskiptingu atvinnutekna sé þess óskað við útreikning réttinda.
Allar skattskyldar tekjur eru skráðar á tekjuáætlunina. Upphæðir sem skráðar eru í tekjuáætlun eru heildartekjur fyrir staðgreiðslu skatta (brúttó).
- Mánaðartekjur eru skráðar sérstaklega á hvern mánuð, ekki heildarupphæð.
- Atvinnutekjur einstakra mánaða hafa eingöngu áhrif á réttindi þess mánaðar sem atvinnutekna er aflað.
- Lífeyrissjóðstekjur, fjármagnstekjur og aðrar skattskildar tekjur falla ekki undir mánaðaskiptingu atvinnutekna og jafndreifast áfram yfir árið.
- Eingöngu er hægt að óska eftir mánaðaskiptingu atvinnutekna við gerð tekjuáætlunar á Mínum síðum TR.
- Hægt er að sjá hvort mánaðaskipting atvinnutekna komi betur út með bráðabirgðaútreikningi á Mínum síðum.
- Hvort sem óskað er eftir mánaðaskipting atvinnutekna eða ekki verður sú reikniregla látin gilda sem betur kemur út við uppgjör ársins.
Ef ástæða þykir áskilur TR sér rétt til að kalla eftir gögnum til stuðnings nýjum/breyttum tekjuupplýsingum og eftir atvikum fresta nýjum útreikningi greiðslna þar til gögnin berast. Þetta er gert í samræmi við 52. grein laga um almannatryggingar nr. 100/2007.
Spurt og svarað