Mánaðaskipting atvinnutekna

Almenna reglan er sú að Tryggingastofnun styðst við jafndreifingu atvinnutekna í útreikningum sínum á réttindum lífeyrisþega. Áætluðum launatekjum ársins er jafndreift niður á mánuði ársins, óháð því hvenær árs teknanna er aflað. Atvinnutekjur umfram sérstakt frítekjumark atvinnutekna dreifast því jafnt á mánuði ársins og hafa með þeim hætti jöfn áhrif á útreikning réttinda.

Mánaðaskipting atvinnutekna felur í sér að réttindi lífeyrisþega eru reiknuð eftir skráðum atvinnutekjum, hvern mánuð fyrir sig. Með þeim hætti hafa atvinnutekjur einstakra mánaða eingöngu áhrif á réttindi þess mánaðar sem tekna er aflað. Þó atvinnutekjur fari umfram frítekjumark þessa ákveðnu mánuði hefur það ekki áhrif á lífeyrisréttindi á aðra mánuði, þ.e.a.s. að réttindi annarra greiðslumánaða haldast óbreytt í samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar um tekjur. 

Hvort sem óskað er eftir mánaðadreifingu atvinnutekna eða ekki verður sú reikniregla látin gilda sem kemur betur út við uppgjör ársins.

Atvinnutekjur eru launatekjur og aðrar starfstengdar greiðslur. Sem dæmi um atvinnutekjur eru launagreiðslur, reiknað endurgjald, tekjur af atvinnurekstri og atvinnuleysisbætur.  

Hvorki lífeyrissjóðstekjur, fjármagnstekjur né aðrar tekjur, svo sem greiðslur stéttafélaga, falla undir atvinnutekjur og því ekki hægt að óska eftir að færa þær tekjur á þá mánuði er þeirra er aflað.

Eingöngu er hægt að óska eftir mánaðaskiptingu atvinnutekna í gegnum Mínar síður á www.tr.is.

Við gerð tekjuáætlunar þarf að velja reit merktan „Tekjur á mánuði“, smella á örina og haka í þar til gert box.

Atvinnutekjur eru svo skráðar á tiltekna mánuði í tekjuáætlun í samræmi við hvenær þeirra er aflað. 

Hægt er að óska eftir mánaðaskiptingu atvinnutekna frá 1. janúar 2020.

Mikilvægt er að tekjur séu skráðar til samræmis við hvenær þeirra er aflað. Tryggingastofnun greiðir réttindi fyrir fram, fyrsta hvers mánaðar, en að jafnaði greiða atvinnurekendur eftir á greidd laun. Röng skráning atvinnutekna í tekjuáætlun verða ekki til þess að lífeyrisþegi glati réttindum sínum. Ef viðkomandi uppgötvar að tekjuáætlun sem skilað var inn er ekki rétt er hægt að skila inn nýrri  tekjuáætlun í gegnum Mínar síðar. Við uppgjör ár hvert er öllum lífeyrisþegum tryggðar réttar greiðslur í samræmi við skattframtal og við dreifingu atvinnutekna er sú leið farin sem kemur betur út fyrir viðkomandi.

Komi til ofgreiðslu réttinda, þar sem tekna er aflað annan mánuð en skráð er, falla réttindi næsta mánaðar niður en koma ekki til greiðslu í uppgjöri

Mánaðaskipting atvinnutekna getur einkum nýst þeim lífeyrisþegum sem fá óreglulegar atvinnutekjur yfir árið umfram frítekjumark atvinnutekna.

Hvort sem lífeyrisþegi óski eftir mánaðadreifingu atvinnutekna eða ekki gildir sú reikniregla sem betur kemur út fyrir viðkomandi við uppgjör ársins.

Reglurnar má finna í 12. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum og í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags með síðari breytingum.