Tryggingastofnun
Fréttir

3.4.2017

Reglur um bifreiðastyrki hreyfihamlaða rýmkaðar

Tekið hefur gildi breyting á reglugerð sem varðar bifreiðastyrki hreyfihamlaðra. Með breytingunni verður heimilt að veita framfærendum hreyfihamlaðra barna á sama heimili uppbót eða styrk til kaupa á einni bifreið, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. 

Reglugerðarbreytingin er gerð til að gera mögulegt að samnýta bifreiðastyrki til kaupa á einni bifreið ef tvö eða fleiri hreyfihömluð börn sem búa á sama heimili og eiga rétt á bifreiðastyrk frá TR samkvæmt reglugerð nr. 170/2009. 

Með breytingunni verður „í sérstökum tilfellum heimilt að veita framfærendum hreyfihamlaðra barna uppbót eða styrk vegna hvers barns til kaupa á einni bifreið, ef um er að ræða fleiri en eitt hreyfihamlað barn í sömu fjölskyldu og sem búa á sama heimili. Framfærendur skulu í þeim tilfellum sýna fram á að fjölskyldan þurfi stærri bifreið vegna sérstaks búnaðar eða hjálpartækja sem börnin nota að staðaldri og að skilyrði reglugerðar þessarar séu uppfyllt að öðru leyti" eins og segir í reglugerðinni.  


Til baka