Nýtt útlit TR

03. febrúar 2023

Í dag kynnir Tryggingastofnun nýtt útlit á vörumerki, ásamt nýrri litanotkun í öllu efni stofnunarinnar, en þessi uppfærsla á útliti er hluti stöðugrar umbótavinnu innan TR, með góða þjónustu og gott viðmót að leiðarljósi.

 

Vörumerki TR er einkennandi fyrir stofnunina og vel þekkt. Merkið hannaði Tryggvi Tryggvason hönnuður og hefur það verið í notkun um árabil. Breytingarnar á merkinu eru ekki róttækar, en þær voru unnar hjá auglýsingastofunni Kontor og haft samráð við Tryggva um breytinguna. Merkið er nú eingöngu í grænum lit.

 

„Við hjá TR vinnum um þessar mundir að margs konar umbótaverkefnum í starfseminni þar sem áhersla er m.a. á bætta upplýsingagjöf, aðgengilegri upplýsingar og nútímalegri þjónustuleiðir. Breyting á vörumerkinu og ný litanotkun eru hluti af þessari þróunarvinnu. Þessar  breytingar  fela í sér fallegar endurbætur á litasamsetningu og teiknistíl. Vörumerkið okkar breytist einnig þótt ekki sé um ræða algjöra endurhönnun á merkinu sjálfu,“ segir Sigrún Jónsdóttir, sviðsstjóri samskipta hjá TR.

 

„Það var auglýsingastofan Kontor sem hannaði nýtt útlit fyrir TR og markmiðið er að við setjum efnið okkar fram með skýrum og upplýsandi hætti. Við berum umhyggju fyrir  viðskiptavinum okkar og við viljum að það endurspeglist í áframhaldandi notkun á græna litnum sem táknar m.a. jafnvægi, vöxt, öryggi, ferskleika og sátt,“ útskýrir Sigrún.

youtube og fb profile mynd smækkuð.png