Tillaga að tekjuáætlun 2023 birt á Mínum síðum TR

13. desember 2022

Tillaga að tekjuáætlun fyrir árið 2023 verður birt síðar í dag á Mínum síðum TR og þar er hægt að leiðrétta hana ef þörf er á.  Hér er um tillögu að ræða og ef ekki eru gerðar breytingar á henni verða greiðslur til viðkomandi frá TR á árinu 2023 reiknaðar samkvæmt þessari tillögu. 

Hvað er tekjuáætlun?

  • Tekjuáætlun sýnir væntanlegar tekjur árið 2023.
  • Það er mjög mikilvægt að viðkomandi fari yfir tillögu að tekjuáætlun 2023, svo greiðslur til hvers og eins frá TR verði sem réttastar.
  • Ef viðkomandi telur tillöguna ekki endurspegla væntanlegar tekjur ársins 2023 er mikilvægt að leiðrétta hana inni á Mínum síðum TR.

Við hvetjum alla til að skoða tekjuáætlun sína vandlega. Upplýsingar í tekjuáætlun eru á ábyrgð hvers og eins.  

Útreikningar TR

Forsendur TR fyrir tillögu að tekjuáætlun 2023 eru:

  • Skattframtal 2022 vegna tekna 2021
  • Staðgreiðsluskrá 2022
  • Fyrirliggjandi tekjuáætlun
  • Almennar verðlagsbreytingar

Við vekjum athygli á að TR hefur ekki  upplýsingar um breytingar á tekjum einstaklinga.  Það á t.d. við um breytingar á lífeyrisréttindum og mögulegum greiðslum frá stéttarfélögum, eða fjármagnstekjum s.s. söluhagnaði, vaxtatekjum eða leigutekjum. Því er afar mikilvægt að hver og einn fari vel yfir tekjuáætlunina með þetta í huga.

Greiðsluáætlun fyrir árið 2023 verður aðgengileg á Mínum Síðum TR undir lok desember.

Uppgjör að ári loknu

Uppgjör vegna tekjuársins 2023 fer síðan fram árið 2024, þegar skattframtal fyrir tekjuárið 2023 liggur fyrir.  Ef tekjur reynast hærri en gert var ráð fyrir i tekjuáætlun getur það leitt til kröfu en ef þær eru lægri en gert var ráð fyrir getur það leitt til inneignar.

Nánar um útfyllingu tekjuáætlunar.

Myndband um tekjuáætlun.

Lög nr. 100/2007 um almannatryggingar.