Meðferð séreignarlífeyris breytist um áramót

25. nóvember 2022

Vegna breytinga sem verða um áramót á útreikningi á ellilífeyri og tekjutryggingu örorkulífeyris frá TR, höfum við tekið saman nokkur atriði sem skipta máli vegna umsókna til TR.

Breytingin felur í sér að útgreiðsla á skyldubundnum séreignarlífeyri frá lífeyrissjóðum (þ.e. tilgreind séreign, frjáls séreign og bundin séreign) mun framvegis teljast til tekna lífeyrisþega og því lækka greiðslur lífeyris frá almannatryggingum (TR). Ekki verður breyting á meðhöndlun viðbótarlífeyrissparnaðar gagnvart greiðslum frá TR.

 Breytingin hefur áhrif á:

  • þau sem sækja um lífeyri eftir 31. desember 2022.
  • greiðslur til þeirra sem hafa greitt skyldubundin iðgjöld í séreignarsjóði (bundna og frjálsa séreign) hjá Almenna lífeyrissjóðnum, Frjálsa lífeyrissjóðnum, Íslenska lífeyrissjóðnum, Lífsverki og Lífeyrissjóði Tannlæknafélags Íslands.
  • þau sem ráðstöfuðu hluta af sínu skyldubundna iðgjaldi í tilgreinda séreign sem ákveðnir lífeyrissjóðir hafa boðið upp á frá árinu 2016.

Breytingin hefur ekki áhrif á:

  • þau sem eru nú þegar lífeyrisþegar - eða þau sem sækja um lífeyri fyrir áramót.
  • þau sem hafa greitt sín skyldubundnu iðgjöld eingöngu í samtryggingarsjóði eins og t.d. Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóð verslunarmanna eða Gildi.

 Hvað þarf að gera?

Mikilvægt er að þau sem hafa ráðstafað skyldubundnu iðgjaldi í séreignarsjóði og hafa ekki hafið töku lífeyris hjá TR kynni sér vel áhrif breytinganna. Það á sérstaklega við um þau sem geta átt rétt á ellilífeyri frá TR fyrir 1. janúar 2023 en til þess að falla undir „gömlu“ regluna þarf umsókn að hafa borist stofnuninni í síðasta lagi 31. desember 2022 og upphaf lífeyristöku að vera á árinu 2022 eða fyrr. Minnt er á að hægt er að hefja töku ellilífeyris allt frá 65 ára aldri.

Nánari útskýringu á þessum breytingum er að finna hér.

Breytingarnar eru í samræmi við lög sem samþykkt voru á Alþingi í júní 2022. Hér er hlekkur á lögin.