TR fær Jafnvægisvogina

13. október 2022

Huld Magnúsdóttir, forstjóri TR, tók í dag við viðurkenningu Jafnvægissvogar FKA fyrir hlutfall kynja í stjórnendateymi stofnunarinnar. Hjá TR er hlutfall kvenna í framkvæmdastjórn 60% og karla 40% en tilgangur Jafnvægisvogarinnar er að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku atvinnulífi með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja að minnsta kosti 40/60.

Viðurkenningin var afhent á stafrænni ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar 12. október sl. sem bar yfirskriftina „Jafnrétti er ákvörðun“. Elisa Reed forsetafrú afhenti viðurkenninguna.  „Þetta er mikilvæg og jákvæð viðurkenning fyrir Tryggingastofnun. Við höfum lagt ríka áherslu á jafnréttismál í starfsemi stofnunarinnar og erum með skýra jafnlauna- og jafnréttisstefnu, sem og jafnlaunavottun. Fjölbreytni og jafnvægi eru atriði sem þarf sífellt að vakta og vinna að. Við erum þakklát fyrir þessa viðurkenningu og nýtum hana til að minna okkur á að halda áfram að vera vel á verði í jafnréttismálum,“ sagði Huld eftir móttöku viðurkenningarinnar.

Jafnvægisvog FKA er hreyfiaflsverkefni unnið í samstarfi með forsætisráðuneytingu, Sjóvá, Deloitte, Ríkisútvarpinu og Pipar/TBWA. Því er ætlað að vekja fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til umhugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis með auknum jöfnuði kynja í stjórnunarstöðum.

Jafnvægisvogin.jpg

Frétt FKA: Ráðstefna Jafnvægisvogarinnar, Jafnrétti er ákvörðun