Örorkuskírteinið þitt

18. ágúst 2022

Tryggingastofnun hefur um árabil gefið út örorkuskírteini sem hægt er að nálgast á Mínum síðum TR og prenta út. Nú mun TR einnig gefa örorkuskírteinið út sem plastkort í hefðbundinni kortastærð. Eins og verið hefur er skírteinið bæði með íslenskum og enskum texta og án myndar.

Það er einfalt að óska eftir örorkuskírteini, því settur hefur verið sérstakur hnappur á tr.is í gulum borða á forsíðu tr.is þar sem umsækjandi veitir nauðsynlegar upplýsingar. Kortið er svo sent á lögheimili viðkomandi í bréfpósti og verða þau því hvorki afhent hjá TR í Hlíðasmára né hjá umboðum.

Gildistími örorkuskírteina er sá sami og gildistími örorkumatsins og er ætlað þeim einstaklingum sem eru með 75% örorkumat eða meira.

Síðar á árinu er stefnt að því að gefa út stafræn örorkuskírteini til notkunar í snjallsímum.

Á síðunni um örorkuskírteini er hnappurinn sem opnar umsóknarformið aðgengilegur, sem og í gula borðanum neðst á forsíðu tr.is.