Uppgjör fyrir árið 2021 liggur fyrir – inneignir greiddar út 1. júní

19. maí 2022

Rúmlega 40% þeirra sem fengu tekjutengdar greiðslur á síðasta ári eiga inneign, eða um 25 þúsund einstaklingar. Flestir eiga inni greiðslur undir 37.000 krónum. Um 50%, eða um 32 þúsund einstaklingar, fengu ofgreitt og þurfa að endurgreiða í samræmi við það, frá og með 1. september nk.

Niðurstöður á Mínum síðum

Greiðslur frá TR byggja á tekjuáætlunum lífeyrisþega,  þ.e. hvað þeir telja að þeir muni hafa í tekjur á komandi ári. Endurreikningur TR  byggir síðan á tekjuupplýsingum úr staðfestum skattframtölum einstaklinganna að árinu liðnu. Þessi samanburður leiðir í ljós hvort lífeyrisþegi hafi fengið réttar greiðslur, eða hvort frávik valdi því að einstaklingur hafi fengið van-  eða ofgreitt á árinu.

Eðlilegt er að frávik á greiðslum komi fram við endurreikning þar sem erfitt getur reynst að áætla tekjur fram í tímann. Rétt er að benda á að tiltölulega litlar breytingar á tekjum geta orsakað frávik frá greiðslum við endurreikning.

Úrræði vegna niðurstöðu uppgjörs og innheimtu krafna

Ef lífeyrisþegi hefur athugasemdir við niðurstöðu endurreiknings er hægt að óska eftir rökstuðningi, andmæla niðurstöðunni eða hafa samband við Skattinn vegna skattbreytinga. Nánari upplýsingar um úrræðin má finna hér.

Almenna reglan er að kröfur beri að endurgreiða á 12 mánuðum en sérstaklega er bent á að ef það reynist íþyngjandi er ávallt hægt að hafa samband við TR og semja um lengri tíma. Nánari upplýsingar um úrræði vegna innheimtu má nálgast hér.

Rafrænar þjónustuleiðir

Lífeyrisþegar eru hvattir til að skoða niðurstöðuna á Mínum síðum og að nýta sér rafrænar þjónustuleiðir við fyrirspurnir og önnur erindi. Algengum spurningum varðandi endurreikninginn er svarað á tr.is undir liðnum spurt og svarað.