Reglugerð breytt varðandi framfærsluuppbót

08. apríl 2022

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í dómi sínum miðvikudaginn 6. apríl sl. að óheimilt sé að skerða sérstaka framfærsluuppbót á þeim forsendum að einstaklingur hafi búið hluta starfsævi sinnar erlendis. Nánar tiltekið var það niðurstaða réttarins að ákvæði í reglugerð sem mælir fyrir um að framfærsluuppbót skuli reiknuð í samræmi við búsetuhlutfall hafi ekki lagastoð.

 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur birt frétt um breytingu á reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri í kjölfar dómsins. 

 Tryggingastofnun mun svo fljótt sem auðið er breyta útreikningum í samræmi við ofangreint gagnvart þeim sem nú uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Eru búsettir hér á landi
  • Fá greidda sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu
  • Framfærsluuppbótin hefur verið skert vegna fyrri búsetu erlendis

 Upplýsingar verða birtar á Mínum síðum TR hjá þeim sem rétt eiga á slíkum leiðréttingum þegar útreikningar hafa verið endurskoðaðir.