Málþing 15. mars - Brotthvarf úr skólum, birtingarmynd ójafnra tækifæra?

14. mars 2022

Velferðarvaktin í samvinnu við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið standa fyrir málþingi 15. mars þar sem yfirskriftin er: Brotthvarf úr skólum - birtingarmynd ójafnra tækifæra? Málþingið er haldið á Grand hótel  kl. 14.00 - 16.00 og í streymi. Þar verður m.a. fjallað um nýútkomna skýrslu - Félagsleg og efnahagsleg staða og brotthvarf úr íslenskum framhaldsskólum. Niðurstöður hennar benda til að brotthvarf sé birtingarmynd ójafnra tækifæra í íslensku samfélagi. Í skýrslunni eru gögn Hagstofu Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytis greind og horft til félagslegs og efnahagslegs bakgrunns nemenda ásamt námsárangri á grunnskólastigi. Í skýrslunni kemur m.a. fram að það að búa hjá einstæðu foreldri við 16 ára aldur og að eiga foreldri með örorkumat eykur almennt líkurnar á brotthvarfi, dregur úr líkum á endurkomu í nám og eykur líkurnar á endurteknu brotthvarfi. Þessir tveir þættir auka einnig líkurnar á námstöfum og því að vera utan skóla án þess að hafa lokið námi við tuttugu og tveggja ára aldur.

Sjá má  frétt um skýrsluna hér. Skráning á ráðstefnuna er hér

Eins og fyrr segir stendur Velferðarvaktin í samvinnu við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið fyrir málþinginu, en TR á fulltrúa í Velferðarvaktinni.