Sjúkdómsgreiningar, endurhæfing og þróun örorku 2000-2019

28. janúar 2022

Í grein í Læknablaðinu fjallar Ólafur Guðmundsson læknir um þróun úrskurða TR um endurhæfingar- og örorkulífeyri frá því að örorkumatsstaðall sem nú er notaður var innleiddur árið 1999.  

Niðurstöður rannsóknarinnar eru eftirfarandi:

„Nýliðun yngri endurhæfingarlífeyrisþega hefur aukist hratt á undanförnum árum á sama tíma og lítillega hefur dregið úr hlutfallslegri fjölgun örorkulífeyrisþega. Geð- og stoðkerfissjúkdómar eru langalgengustu sjúkdómsflokkarnir sem leiða til skertrar starfsgetu. Geðsjúkdómar skera sig úr hvað varðar aldursdreifingu og fjölgun eftir því sem nær dregur í tíma. Hlutfall einstaklinga á aldrinum 18-66 ára með 75% örorkumat hefur aukist um þriðjung á tímabilinu, úr um 6% í 8%. Kynjaskipting örorkulífeyrisþega helst svipuð, konur eru um 62% hópsins í heildina. Konur eru mun líklegri til að verða öryrkjar vegna stoðkerfissjúkdóma, en karlar nokkru líklegri vegna geðsjúkdóma. Hlutfallsleg þróun ríkisútgjalda vegna heildargreiðslna til endurhæfingar- og lífeyrisþega heldur áfram að vaxa sem hlutfall af ríkisútgjöldum.“

Ólafur Guðmundsson var tryggingayfirlæknir hjá TR til síðustu áramóta. Að rannsókninni unnu einnig Þóra Jónsdóttir tölvunarfræðingur, Haukur Eggertsson verkfræðingur og Guðmundur Hjaltalín kerfisfræðingur hjá TR.

Í rannsókninni er byggt á sjúkdómsgreiningum í læknisvottorðum sem fylgja fyrstu umsóknum til TR um lífeyri á 20 ára tímabili 2000-2019 og hafa verið samþykktar til greiðslu endurhæfingar- og örorkulífeyris. Upplýsinga um mannfjöldatölur var aflað frá Hagstofu Íslands og um ríkisútgjöld hjá Ríkisendurskoðun.

Greinin birtist í 12. tbl. Læknablaðsins 107 árg. 2021 og má nálgast hana í heild sinni hér:

Sjúkdómsgreiningar, endurhæfing og þróun örorku 2000-2019