Tryggingastofnun 85 ára

09. desember 2021

Á þessu ári eru 85 ár liðin frá því að Tryggingastofnun ríkisins tók til starfa samkvæmt lögum um alþýðutryggingar nr. 26/1936. Stofnunin hefur ýmist heyrt undir félagsmála-, eða heilbrigðisráðuneyti. Framan af heyrði stofnunin þó undir atvinnu- og samgöngumálaráðuneytið en þar var félagsmálum sinnt á þeim tíma. Frá 1946 til 1969 heyrði stofnunin undir félagsmálaráðuneytið.TR hefur lengst af heyrt undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið eða í u.þ.b. 40 ár, þ.e. árin 1969 til 2008. Það ár flutti TR undir félags- og tryggingamálaráðuneytið og breytti með því heiti ráðuneytanna beggja. Árið 2011 var velferðarráðuneytið stofnað við samruna þessara ráðuneyta. Sú skipan breyttist aftur árið 2018 og fylgdi TR félagsmálaráðuneytinu við þá breytingu. Núverandi ráðherra félags- og vinnumarkaðsmála er Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Forstjórar

Forstjóri TR er Sigríður Lillý Baldursdóttir, en hún var sett í starfið 1. nóvember 2007 og síðan skipuð forstjóri 6. febrúar 2008. Forveri hennar var Karl Steinar Guðnason, sem var forstjóri 1993-2007. Eggert G. Þorsteinsson var forstjóri 1979 – 1993, Gunnar J. Möller var forstjóri í tvígang, 1970 og 1978-1979. Frá 1970 – 1978 var Sigurður E. Ingimundarson forstjóri en hann tók við af Sverri Þorbjörnssyni sem var forstjóri 1957-1970. Lengstan tíma í forstjórastól á Haraldur Guðmundsson en hann var forstjóri 1938 – 1957 eða í 19 ár. Fyrsti forstjóri Tryggingastofnunar var Brynjólfur Stefánsson en hann gegndi því starfi 1936-1937.

Aðsetur og starfsfólk

Tryggingastofnun flutti að Hlíðasmára 11 í Kópavogi, þann 1. apríl 2019. Aðalskrifstofurnar höfðu verið á Laugavegi 114, allt frá upphafi ársins 1954. Það húsnæði var endurnýjað árið 2000. Fjöldi starfsfólks þá var um 140 á Laugavegi og um 20 í Hjálpartækjamiðstöð í Kópavogi.

Nú er starfsfólk TR um 100 í Hlíðasmára, en auk þess eru um 24 umboðsmenn um allt land, en þeir eru staðsettir hjá sýslumönnum. Umboð TR hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu fluttist til TR í júní á þessu ári.

Þjónusta við viðskiptavini

Tryggingastofnun er ein helsta miðstöð velferðarmála hér á landi og eru viðskiptavinir um 70.000 að jafnaði á mánuði. Viðskiptavinahópurinn er mjög fjölbreyttur og reynt að taka tillit til ólíkra þarfa eins og kostur er. Samskipti og þjónusta við viðskiptavini hefur eðlilega breyst töluvert í tímans rás, m.a. hafa bréfasendingar dregist verulega saman og þjónustan orðið meira rafræn en áður var. Rafræn þjónusta á Mínum síðum var innleidd síðsumars 2008 og hefur sá þáttur starfseminnar vaxið gríðarlega og bætt þjónustu og samskipti við viðskiptavini. Segja má að TR sé leiðandi meðal opinberra stofnana á hinni stafrænu vegferð sem þjónusta hins opinbera er nú á. Þar eru Mínar síður TR flaggskipið og einn mest notaði samskiptamáti viðskiptavina við stofnunina.

Lagaleg umgjörð

Upphaf almannatrygginga á Íslandi má rekja til laga um styrktarsjóð handa öldruðum og lasburða alþýðufólki sem samþykkt voru árið 1889. Það má einnig nefna lög nr. 65/1928 um samstjórn tryggingastofnana landsins og lög nr. 72/1931 um slysatryggingar sem voru forverar laga um alþýðutryggingar. Það var síðan árið 1946 sem lög um almannatryggingar voru sett og þá voru gerðar nokkuð viðamiklar breytingar á löggjöfinni, sem fólust m.a. í sameiningu allra trygginga og ýmis konar opinberrar forsjár í eitt kerfi sem átti að fylgja þegnunum frá vöggu til grafar. Heitið „lög um almannatryggingar“ hefur haldist óbreytt frá 1946 þó svo að inntakið hafi vissulega breyst töluvert í tímans rás. Árið 1955 var Atvinnuleysistryggingasjóður stofnaður, en atvinnuleysistryggingakafli alþýðutryggingalaganna hafði í raun aldrei komið til framkvæmda. Stofnuð var endurskoðunardeild innan Tryggingastofnunar sem tók til starfa 1965. Árið 1971 voru samþykkt ný heildarlög um almannatryggingar. Árið 1999 voru gerðar nokkrar lagabreytingar sem fólu m.a. í sér að tryggingaráð var lagt niður, en úrskurðarnefnd almannatrygginga sett á stofn, nú úrskurðarnefnd velferðarmála. Gildandi lög um starfsemina eru í grunninn frá árinu 2007, þ.e. lög um almannatryggingar nr. 100/2007 og lög nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Hjálpartækjamiðstöð Tryggingastofnunar var stofnuð 1986 og árið 1989 var sett inn í almannatryggingalögin heimild til greiðslu endurhæfingarlífeyris. Sjúkrasamlögin voru lögð niður árið 1990 og starfsemi þeirra yfirtekin af Tryggingastofnun. Töluverð breyting varð á starfseminni árið 2008 þegar sjúkra-, slysa- og sjúklingatryggingar voru færðar yfir í nýja stofnun – Sjúkratryggingar Íslands.

Traust – samvinna - metnaður

Eins og ljóst er þá setur Tryggingastofnun hvorki lög né reglugerðir og ákvarðar ekki fjárhæðir bóta. Hlutverk TR er fyrst og fremst að framfylgja lögunum með framkvæmd sinni og þjónustu. Það er grundvallaratriði í starfseminni að tryggja rétta afgreiðslu – lögum samkvæmt –, góða þjónustu og öfluga leiðsögn um flókin réttindakerfin. Gildi TR; traust, samvinna og metnaður eru þar ávallt í öndvegi höfð. Framtíðarsýn Tryggingastofnunar er að vera framsækinn vinnustaður sem sýnir fagmennsku í starfsháttum og veitir framúrskarandi þjónustu

Forstjórar TR - frá 1936.jpg

húsnæði TR í 85 ár.jpg