Endurhæfingarlífeyrisþegar geta sótt um uppbót vegna reksturs bifreiða

22. september 2021

Félagsmálaráðuneytið hefur gefið út nýja bifreiðareglugerð, um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Reglugerðin tók gildi 1. september sl. og er nr. 905/2021. Samkvæmt henni geta endurhæfingarlífeyrisþegar  nú sótt um uppbót vegna reksturs bifreiðar, en þetta er í fyrsta skipti sem þeir geta sótt um slíka uppbót, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Hingað til hafa eingöngu hreyfihamlaðir elli- eða örorkulífeyrisþegar og örorkustyrksþegar getað fengið uppbót til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar.

 Hjón og sambýlisfólk geta sótt um styrk til kaupa á sömu bifreið

Aðrar breytingar sem vakin er athygli á er að hjón og sambýlisfólk geta bæði sótt um uppbót/styrk til kaupa á sömu bifreið. Þegar fullorðnir hafa sótt um uppbót/styrk vegna bifeiðakaupa þá hefur hingað til einungis verið greidd ein uppbót eða styrkur vegna hverrar bifreiðar. Rétt er að taka fram að sameiginlegir styrkir hjóna/sambýlisfólks geta aldrei verið hærri en kaupverð bifreiðar.

 Hærri uppbót til þeirra sem hafa ekki átt bifreið í 10 ár

Þeir sem eru að kaupa bifreið í fyrsta skipti hafa  getað fengið 720.000 kr. í uppbót vegna bifreiðakaupa í stað 360.000 kr. Samkvæmt nýju reglugerðinni þá geta einnig þeir sem ekki hafa átt bifreið í 10 ár áður en sótt er um einnig fengið hærri uppbótina.