Í starfsemi TR er lögð áhersla á að vera í góðu sambandi við alla viðskiptavini, jafnt með stafrænum hætti sem og eftir öðrum leiðum. Þetta og fleira sem snýr að starfsemi TR á stafrænum vettvangi kom fram í fyrirlestri Sigríðar Lillý Baldursdóttur forstjóra TR á ráðstefnunni Tengjum ríkið sem var haldin í lok ágúst. (Sjá fyrirlestur hér f. neðan)
Erindum og umsóknum til TR hefur fjölgað mikið undanfarin ár og meðferðarþungi hvers máls hefur aukist umtalsvert, sem dæmi má taka umsóknir um endurhæfingu sem voru um 12 þúsund á síðasta ári með flóknu utanumhaldi og eftirfylgni. Það sama má segja um erlendu erindin sem verða sífellt fleiri og flóknari. Á sama tíma hefur starfsfólki ekki fjölgað. Því er brýnt að auka sjálfvirkni og stafrænar lausnir, en ætíð með þarfir viðskiptavinanna í forgrunni.
Öflugar Mínar síður TR
Sigríður Lillý vakti athygli á Mínum síðum TR þar sem allar umsóknir, 32 að tölu eru stafrænar og gagnvirkar. Á Mínum síðum geta einstaklingar nálgast öll erindi, bréf og ákvarðanir, sem eru nú einnig sett í stafrænt pósthólf. Jafnframt benti hún á að einnig er bein tenging frá island.is á stafrænar umsóknir hjá TR, án millilendingar á Mínum síðum. Mínar síður eru nú einnig á ensku til að mæta vaxandi fjölda viðskiptavina sem hafa ekki íslenskuna á sínu valdi.
Fjöldi heimsókna og notenda Minna síðna hefur vaxið umtalsvert undanfarin ár og aldrei meira en undanfarin tvö ár, eins og fram kom hjá Sigríði Lillý. Hlutur símans í tækjabúnaði notenda hefur aukist hratt. Notkun Minna síðna er orðin ríkjandi þjónustuleið hjá TR og er hlutur þeirra af snertingum við TR um 75%.
Í nýlegri úttekt kemur fram að ríflega 70% eldri borgara hafi möguleika á að nota netið og eiga tölvur eða tölvubúnað. Það eru athyglisverðar tölur og líklega með þeim hærri meðal þjóða. Sigríður Lillý benti á að hafa þarf í huga að þá eru um 30% sem eru þá ekki með aðgang að þessari leið í þjónustunni. Að því þarf að gæta í starfsemi TR.
Umfangsmikil vefþjónustusamskipti
Vegna eðlis starfsemi TR þarf stofnunin að vera í virkum samskiptum við fjölmargar stofnanir og fagðila innan lands sem utan. Stefnt er að því að koma þessum samskiptum á Strauminn – X-ROAD hjá Stafrænu Íslandi. TR sér m.a. um rekstur upplýsingakerfis sem tengir TR, Vinnumálastofnun, Sjúkratryggingar og Skattinn við 10.000 aðrar stofnanir í 32 Evrópulöndum. Þetta umfangsmikla upplýsingakerfi var tekið í notkun árið 2019 og var Ísland á meðal fyrstu landa í Evrópu að taka þetta kerfi í notkun. Tengipunkturinn á Íslandi við miðlægan kerfishluta í Evrópu er hjá TR sem hefur jafnframt stýrt innleiðingunni hér á landi.
Aukin stafræn starfsemi og sjálfvirkni er augljóslega nauðsynleg svo hægt sé að mæta kröfum um góða og skilvirka stjórnsýslu. Verkefnið er ekki einvörðungu tæknilegt – það þarf að skora hefðbundinn þankagang á hólm og það mun hrikta í stoðum.
Sigríður Lillý óskaði að lokum Stafrænu Íslandi velfarnaðar og sagði TR vera tilbúna að leggja sitt af mörkum.
Stafræn vegferð TR