Nýr vefur með tölfræðiupplýsingum frá Norðurlöndunum var opnaður nýlega, en tölfræðin er á sviði félags- og heilbrigðismála, þ.m.t. almannatryggingar. Upplýsingarnar á vefnum eru settar fram á gagnvirkan hátt.
Gagnvirk birting á vef með þessum hætti mun auðvelda aðgengi að tölulegum upplýsingum sem nýta má til stefnumótunar auk markvissrar miðlunar á þekkingu um þessa málaflokka.
Það eru tvær norrænar nefndir NOSOSCO og NOMESCO sem standa að nýja vefnum. Á þeirra vegum hafa verið gefnar út skýrslur með samanburðarhæfum tölulegum upplýsingum um félagsmál, almannatryggingar og heilbrigðismál á Norðurlöndunum í meira en 50 ár. Hér eftir verða þessar upplýsingar eingöngu birtar á hinum nýja vef.
Gögn fyrir Ísland koma m.a. frá Tryggingastofnun, Hagstofu Íslands, embætti landlæknis, Lyfjastofnun og Krabbameinsskrá. Það sama á við um hin Norðurlöndin en upplýsingar koma frá hagstofum hvers lands auk hinna ýmsu stofnana í hverju landi fyrir sig. Á nýja vefnum er bæði hægt að finna tölfræði og þemaskýrslur þar sem ákveðin efni eru tekin fyrir og rýnd.
Tryggingastofnun hefur verið virkur þátttakandi í NOSOSCO til margra ára og kom m.a. að undirbúningi vefsíðunnar ásamt félagsmálaráðuneytinu og þeim stofnunum hérlendis sem taldar eru upp hér að ofan.
Markmið með NOSOSCO (Norræn nefnd um tölfræði á sviði félagsmála) og NOMESCO (Norræn nefnd um tölfræði á sviði heilbrigðismála) eru:
- að safna og setja fram tölfræðiupplýsingar um heilbrigðismál og félagsleg málefni, m.a. almannatryggingar á Norðurlöndunum.
- að þróa tölfræðivísa og útreikninga til að bera saman lífskjör á Norðurlöndunum.
- að fylgjast með og uppfæra reglulega upplýsingar í gagnagrunninum og á hinum nýja vef.