Áhrif séreignarsparnaðar í uppgjöri 2020

07. júlí 2021

Með lagabreytingum á árinu 2020, sem ætlað var að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveirunnar, var lífeyrisþegum gefinn kostur á að taka út séreignarsparnað sinn án þess að úttektin hefði áhrif á bætur Tryggingastofnunar samkvæmt lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 og lögum um félagslega aðstoð nr. 99/2007, að uppfylltum nánari skilyrðum.

Í uppgjöri stofnunarinnar á tekjutengdum greiðslum ársins 2020 komu upp tæplega 300 tilfelli þar sem lífeyrisþegar urðu fyrir skerðingu, í bótaflokknum sérstök uppbót til framfærslu, vegna úttektar séreignarsparnaðar.

Orsökin var skráning tekna í skattframtal af hálfu vörsluaðila séreignarsparnaðar (þ.e. lífeyrissjóðir og bankar). Úttektin var skráð í skattframtal sem lífeyrisgreiðslur úr séreignarsjóðum en ekki sem sérstök útgreiðsla séreignarsparnaðar, sem hefur ekki áhrif á tekjutengdar bætur. Tryggingastofnun ber að fara eftir skráningu frá Skattinum og getur ekki breytt skráningu þessara tekjuupplýsinga.

Til að aðstoða lífeyrisþega við að fá þetta leiðrétt mun Tryggingastofnun senda þeim sem þetta á við um bréf á næstu dögum þar sem farið er yfir málavexti og leiðbeiningar um hvernig hægt er að fá þessari skráningu breytt hjá Skattinum og fá réttindin frá Tryggingastofnun endurreiknuð í kjölfarið. Lífeyrisþegar Tryggingastofnunar sem fá þetta bréf geta einnig fengið nánari skýringar og leiðbeiningar í þjónustumiðstöð að Hlíðasmára 11 í Kópavogi og hjá umboðum um allt land eða í síma 560 4400 milli kl. 12-15.