Breyting á reglugerð um heimilisuppbót

02. júlí 2021

Félagsmálaráðuneytið gaf nýlega út breytingu á reglugerð nr. 120/2018 um heimilisuppbót.  Breytingin tók gildi 12. júní 2021. Hún felur í sér að í stað þess að miða við 18 til 20 ára aldur þá er nú miðað við 18 til 25 ára aldur þegar metið er fjárhagslegt hagræði vegna annarra heimilismanna við ákvörðun heimilisuppbótar.

Hingað til hafa lífeyrisþegar áfram notið heimilisuppbótar ef einstaklingur er búsettur á heimilinu á aldrinum 18 til 20 ára og er jafnframt í námi.  Breytingin nú felur í sér að aldursviðmið er hækkað í 25 ára aldur, áfram að því skilyrði uppfylltu að einstaklingurinn sé í námi.

Á þessum forsendum vill Tryggingastofnun benda viðskiptavinum á að ef þeir telja sig falla undir þessi skilyrði að sækja þá um heimilisuppbót að nýju eða hafa samband við Tryggingastofnun og kanna hvort rétturinn á heimilisuppbótinni kunni að vera til staðar.

Þá mun Tryggingastofnun á næstunni fara yfir hvaða viðskiptavinir kunni að falla undir þessa breytingu og senda þeim aðilum bréf um mögulegan rétt á heimilisuppbót.