TR tekur við umboðsstörfum sem embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hefur sinnt

22. júní 2021

Tryggingastofnun sér nú alfarið um þjónustu við alla íbúa á höfuðborgarsvæðinu og hefur tekið við þeim umboðsstörfum sem embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hefur sinnt til margra ára. Þar til um miðjan júní sá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um meðferð mála sem snerta almannatryggingar og heyra undir Tryggingastofnun fyrir íbúa í Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi.

Í ljósi nálægðar stofnananna tveggja eftir flutning TR og breytinga á stjórnsýsluframkvæmd var niðurstaðan að TR myndi taka yfir þau verkefni sem sýslumannsembættið á höfuðborgarsvæðinu hafði sinnt áður fyrir hönd stofnunarinnar.

Ekki verður við þetta breyting á þjónustu annarra sýslumannsembætta utan höfuðborgarsvæðisins. Þau munu áfram sinna umboðsstörfum fyrir TR á grundvelli gildandi samnings.