Þjónustugáttin „Mínar síður“ eflist og notkun eykst um 30%

11. júní 2021

Það felst mikið hagræði fyrir viðskiptavini í því að geta sjálfir sótt upplýsingar, hvar og hvenær sem er, og hefur markmið Tryggingastofnunar undanfarin ár verið að efla þjónustu á netinu. Enn frekari þungi var lagður á þessa þjónustu þegar tekist var á við heimsafaraldurinn Covid-19 og þegar loka þurfti þjónustumiðstöð Tryggingastofunar var mikil áhersla lögð á að kynna þjónustugáttina Mínar síður enn betur. Þessi áhersla hefur bætt upplýsingamiðlun til viðskiptavina til mikilla muna og stóraukið notkun fólks á Mínum síðum.  

Eins og kemur fram í nýrri ársskýrslu TR er nú hægt að nálgast upplýsingar á Mínum síðum á ensku og frá því í byrjun þessa árs hafa viðskiptavinir einnig getað fylgst með stöðu sinna umsókna á Mínum síðum sem bætir gegnsæi og þjónustu gagnvart viðskiptavinum til muna. Notkun hefur líka aukist mjög en 30% aukning varð á nýjum notendum á Mínum síðum í mars 2020 miðað við mars 2019 og enn meiri fjölgun varð á nýjum notendum frá apríl 2019 og 2020 en þá hafði þeim fjölgað um 40% á milli ára. 

Gæða- og umbótastarf hefur verið stór þáttur í starfsemi Tryggingastofunar um langt skeið. Stöðugt er unnið að því innan stofnunarinnar að bregðast við nýjum þörfum og kröfum og nýta til þess alla þá tækni og úrræði sem til eru á hverjum tíma. Þessi áhersla Tryggingastofunnar var einn lykilþátta í að vel tókst til við að halda uppi þjónustu við viðskiptavini þegar tekist var á við áskoranir heimsafaraldursins Covid-19.