Ójöfnuður gæti aukist í kjölfar COVID-19

31. maí 2021

Norræna almannatryggingamótið (NSFM) var haldið í síðustu viku en yfirskrift mótsins var Almannatryggingar á Norðurlöndunum – áskoranir eftir Covid 19. Mótið er mikilvægur vettvangur fyrir allar helstu stofnanir á Norðurlöndunum sem sinna almanna- og sjúkratryggingum til að deila reynslu og þekkingu, en í ár var mótið skipulagt af Íslandi.

Líkur á að stafræn þróun auki ójöfnuð

„Covid-19 hefur magnað upp áhrif breytinga vegna stafrænnar þróunar á vinnumarkaði,“ sagði Mark Pearson, aðstoðarframkvæmdastjóri  vinnumarkaðs- og félagsmála hjá OECD, sem var annar aðalræðumanna mótsins. Pearson telur verulega hættu á að stafræn þróun muni auka ójöfnuð og óöryggi á vinnumarkaði. Hann segir að aukin sjálfvirkni og stafræn þróun muni ekki koma til með að fækka störfum því þau skapi í raun jafn mörg störf og fækki um. Hins vegar mun störfum sem krefjast miðlungs færni fækka á meðan störfin sem skapast verða annars vegar mjög sérhæfð og hins vegar störf sem krefjast takmarkaðrar þekkingar. Þetta geti ýtt undir meiri skiptingu og aðskilnað á vinnumarkaði og því sé veruleg hætta á auknum ójöfnuði og óöryggi meðal fólks um framtíð sína, ef stjórnvöld bregðast ekki við með einhverjum hætti. Pearson sagði einnig að faraldurinn hafi afhjúpað bæði veikleika og styrkleika félagslegra öryggisneta innan OECD en að hin norrænu velferðakerfin hafi staðist álagsprófið betur en flestar aðrar þjóðir.

Félagsleg nýsköpun og notendamiðaðar lausnir

Árni Páll Árnason, varaframkvæmdastjóri skrifstofu Uppbyggingarsjóðs EES og fyrrverandi félagsmálaráðherra, var annar aðalræðumaður mótsins en hann ræddi skýrslu um norræna velferðakerfið sem hann vann árið 2018. Árni Páll rýndi í tillögur skýrslunnar um hvernig hægt sé að styrkja velferðakerfin enn frekar í ljósi reynslunnar  af Covid-19. Þar lagði hann áherslu á að hagnýta betur þekkingu og vísindasamfélagið. Hann segir að þörf sé á að opna hin norrænu kerfi frekar fyrir félagslegri nýsköpun og þau vinni saman að því verkefni. Einnig sé mikil þörf á að kerfin séu notendamiðaðri og setji einstaklinginn í fyrirrúm. Í því felist miklir möguleikar fyrir framsæknar lausnir, sem hægt væri að þróa í norrænni samvinnu.

Mikilvægur vettvangur

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, opnaði þingið og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, sleit því. Ráðherrarnir lögðu bæði áherslu á mikilvægi Norræna almannatryggingamótsins þar sem fagaðilar hafa vettvang til að deila reynslu, miðla upplýsingum og læra hvert af öðru. Ásmundur Einar ítrekaði mikilvægi góðs samstarfs, bæði í alþjóðlegu samhengi og innanlands. Á Íslandi hafi t.a.m. verið lögð áhersla á gott samstarf stjórnvalda, sveitarfélaga, fagaðila og hagsmunasamtaka í öllum viðbrögðum vegna faraldursins og hafi það reynst lykilatriði til að tryggja nauðsynlega þjónustu fyrir mikilvæga hópa.  

Svandís sagði mikil tækifæri liggja í því fyrir Norðurlöndin að nýta og miðla þekkingu á milli landa. Hún  fór í erindi sínu yfir stöðu bólusetninga og viðbrögð stjórnvalda hér á landi við faraldrinum sem gengu fyrst og fremst út á að vernda líf og draga úr hættu á að yfirfylla sjúkrahúsin. Enn sé þó ekki allt yfirstaðið: „Það er margt sem er enn óljóst og því er sérlega mikilvægt að halda mót á borð við þetta þar sem við getum deilt þekkingu og lært hvort af öðru.“  

Norræna almannatryggingamótið hefur verið haldið á fjögurra ára fresti nær óslitið frá 1935. Í ár var mótið haldið á Íslandi og voru það Tryggingastofnun, Sjúkratryggingar Íslands, Vinnumálastofnun, heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið sem komu að skipulagningunni.