Úrskurðarnefnd velferðarmála (ÚRVEL) komst 20. janúar sl. að þeirri niðurstöðu í tveimur málum, að óheimilt hafi verið að skerða sérstaka uppbót á lífeyri í samræmi við búsetu erlendis, það er í samræmi við búsetuhlutfall eins og það er skilgreint í almannatryggingalögum og snéri þar með við fyrri afstöðu sinni, án rökstuðnings.
ÚRVEL vísaði í úrskurðum sínum til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. júní 2020, en dómurinn hafði talið að í fyrirmælum reglugerðarákvæðis fælist íþyngjandi inngrip í rétt borgaranna en fyrir efni ákvæðisins fyndist ekki ótvíræð lagastoð í lögum um félagslega aðstoð. Þeim dómi hafði þá þegar verið áfrýjað til Landsréttar og er þar til meðferðar. Endanlegur dómur liggur þannig ekki fyrir í því máli.
Með úrskurðum ÚRVEL skapast óviðunandi réttarfarsleg óvissa sem eyða þarf og því er ÚRVEL nú stefnt til ógildingar úrskurðum nefndarinnar. Þar sem einstaklingarnir sem um ræðir í úrskurðum ÚRVEL hafa fjárhagslegra hagsmuna að gæta vegna úrskurða nefndarinnar er þeim jafnframt stefnt. Ekki er gerð krafa um málskostnað úr hendi þeirra.