Samið við Sólheima um kolefnisjöfnun í anda loftslagsstefnu TR

24. febrúar 2021

Sigríður Lillý Baldursdóttir forstjóri TR og Kristín Björg Albertsdóttir framkvæmdastjóri Sólheimaseturs hafa skrifað undir samning um kolefnisbindingu á allri losun kolefnis sem fellur til vegna starfsemi Tryggingastofnunar. Samningurinn er til fimm ára og mun Sólheimasetur annast bindinguna með því að gróðursetja tré í Sólheimaskógi sem hlotið hefur vottun frá Vottunarstofunni Túni.

TR er umhugað að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og er samningnum ætlað að styðja við markmið TR í gildandi loftslagsstefnu um kolefnishlutleysi. TR setti sér  loftslagsstefnu  sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um samtals 30% til ársins 2030 miðað við árið 2018. Með stefnunni viljum við takmarka eins og kostur er þá þætti í starfsemi TR sem hafa neikvæð áhrif á umhverfið og skipta út gömlum siðum og venjum fyrir nýja sem hafa jákvæðari áhrif fyrir umhverfið og samfélagið. Þannig viljum við leggja okkar á vogarskálarnar til að skapa sjálfbært, vistvænt samfélag fyrir okkur öll. Lofslagsstefna TR, staðfest okt. 2020.

Með samningnum við Sólheimasetur ses skuldbindur Tryggingastofnun sig til að halda kolefnisbókhald yfir starfsemina. Í það skal m.a. skrá flugferðir starfsmanna, akstur á vegum stofnunarinnar, losun vegna sorphirðu og annarra þátta sem leiða til losunar kolefnis í andrúmsloftið. Sólheimasetur skal skrá með nákvæmum hætti fjölda trjáa sem gróðursett verða, staðsetningu þeirra og dagsetningu gróðursetningar þannig að staðfesta megi með rekjanlegum hætti að kolefnisjöfnun hafi sannarlega farið fram.

Sólheimar.jpg