Ný forsíða bætir enn frekar aðgang og þjónustu

08. febrúar 2021

Tryggingastofnun hefur sett nýja forsíðu í birtingu á vef sínum, www.tr.is. Markmiðið með breytingunni er að bæta enn frekar þjónustu og aðgang að nauðsynlegum upplýsingum um almannatryggingar með rafrænum hætti.

Á forsíðunni er gott aðgengi að Mínum síðum TR, reiknivélinni og mælaborði TR auk þess sem fréttum og tilkynningum hefur fjölgað. Þar birtast einnig tölulegar staðreyndir úr starfseminni nýliðinn mánuð: Þar kemur m.a. fram að í janúar bárust þjónustumiðstöð TR rúmlega 7000 símtöl og að viðskiptavinir voru tæplega 65.000 talsins.

Fjöldi notenda Minna síðna óx um 31%

Á vef TR eru upplýsingar um umferð á vefnum og á Mínum síðum. Þar kemur fram að notendum vefsins hefur fjölgað um 15% á milli áranna 2019 og 2020 og enn meiri aukning var milli ára á notkun Minna síða, þar sem fjöldi notenda hækkaði um 31%. 

Við hönnun og þróun á vefnum er tekið mið af þörfum viðskiptavinarins og er bæði stuðst við vefmælingar og ábendingar frá notendum.  Ávallt er leitast við að hafa upplýsingar vel fram settar. Það er ánægjulegt að sjá að notendur eru að nýta sér, í enn meira mæli en áður, þá rafrænu þjónustu sem í boði er.

Hjá Tryggingastofnun hefur verið og verður áfram lögð mikil áhersla á bæta og auka fjarþjónustu, m.a. í ljósi áhrifa heimsfaraldursins, og því eru allar ábendingar frá notendum vel þegnar.