Desemberuppbætur verða greiddar út í byrjun desember

27. nóvember 2020

Desemberuppbót ellilífeyrisþega og örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega verður greidd 1. desember nk. Foreldrar langveikra eða alvarlega fatlaðra barna fá greidda desemberuppbót síðar í mánuðinum.

Ellilífeyrir

Desemberuppbót  ellilífeyrisþega er 58.097 kr. en lækkar í samræmi við fjölda mánaða sem viðkomandi fær greitt. Desemberuppbót er tekjutengd.

Örorku og endurhæfingarlífeyrir

Desemberuppbót örorku-  og endurhæfingarlífeyrisþega er 30% af greiddri tekjutryggingu á árinu 2020 og 30% af greiddri heimilisuppbót en lækkar í samræmi við fjölda mánaða sem viðkomandi fær greitt.  Desemberuppbót miðað við fulla tekjutryggingu er 46.217 kr. en ef viðkomandi er með heimilisuppbót bætist við 15.621 kr. Desemberuppbót lækkar í hlutfalli við lækkun tekjutryggingar.

Foreldragreiðslur

Desemberuppbót til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna er greidd til foreldra sem eru að fá foreldragreiðslur í desember 2020.  

Desemberuppbót er 61.840  kr. til þeirra sem eiga full réttindi.  Foreldri sem hefur fengið þessar greiðslur skemur en tólf mánuði á árinu 2020 á rétt á hlutfallslegri uppbót í samræmi við þann tíma sem foreldrið hefur fengið greiðslur á árinu. Uppbótin verður þó aldrei lægri en sem nemur 15.460kr.

Aðeins ofangreindir hópar hafa rétt á desemberuppbót frá Tryggingastofnun.