TR fer upp um 41 sæti milli ára í könnun um stofnun ársins

15. október 2020

Niðurstöður um val á stofnun ársins var tilkynnt í gær en þar kom fram að TR lenti  26. sæti stofnana sem eru með 50 starfsmenn eða fleiri, en alls voru 85 stofnanir í þeim stærðarflokki í ár.  Í fyrra var stofnunin í 67. sæti og hefur stofnunin því hækkað um 41 sæti á milli ára. 

Í febrúar á ári hverju tekur starfsfólk TR þátt i vali um stofnun ársins en um tvískipta skoðanakönnun er að ræða sem snýr að vali á stofnun ársins annars vegar þar sem starfsmenn meta frammistöðu stofnunar. Hins vegar er það launakönnun sem veitir innsýn í þróun launa og launamun kynjanna.

Frábær árangur TR í vali á stofnun ársins í ár er mikil viðurkenning á þeirri miklu vinnu sem hefur átt sér stað í innra starfi stofnunarinnar. Má þar nefna að á árinu 2019 flutti stofnunin í ný húsakynni að Hlíðasmára 11 þar sem boðið er upp á nútímalegt  vinnuumhverfi þar sem allir vinna í opnum vinnurýmum með aðgangi að fjölbreyttum sérrýmum til að leysa ólík verkefni. Góð húsakynni, fyrsta flokks tæknibúnaður og frábær mannauður leiðir til þess að betra flæði er í vinnu verkefna og  framþróun verður meiri.  Lögð hefur verið áhersla á öflugt umbótastarf, góða starfsþróun, jafnréttisvitund og góð samskipti á meðal starfsfólks sem leiðir til aukinnar starfsánægju og betri vinnustaðamenningar.

Hjá TR starfar samstilltur hópur starfsfólks með hátt menntunarstig, langa starfsreynslu og gott viðhorf í að sinna því gjöfula hlutverki sem stofnunin hefur.