Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Tryggingastofnun og stöðu almannatrygginga

14. október 2020

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Tryggingastofnun og stöðu almannatrygginga

Ríkisendurskoðun hefur birt skýrslu um Tryggingastofnun og stöðu almannatrygginga á vef sínum. Við fögnum úttektinni  og teljum margar af tillögunum sem fram koma til úrbóta afar gagnlegar.

Þjónusta og upplýsingagjöf

Það er mikil áskorun að upplýsa almenning og viðskiptavini um flókin réttindi sem eru í eðli sínu einstaklingsbundin. Viðskiptavinir Tryggingastofnunar eru um 75 þúsund og miklu skiptir að ekkert fari úrskeiðis í úrvinnslu umsókna og við ákvörðun réttinda.

Við leggjum áherslu á að þjónusta viðskiptavini okkar eins vel og kostur er. Sífellt er unnið að því að útfæra nýjar þjónustuleiðir hjá Tryggingastofnun og bæta þannig þjónustu og upplýsingagjöf við viðskiptavini. Við höfum notið góðs samstarfs við hagsmunahópa eins og ÖBÍ, Þroskahjálp og félög eldri borgara við þá vinnu.  Á þessu ári hafa t.d. verið umtalsverðar umbætur og nýbreytni í þjónustu stofnunarinnar og má þar nefna nýsköpunarverkefni TR í fjarheilbrigðisþjónustu.

Gæða- og umbótastarf

Eins og fram kemur í skýrslunni þá hefur gæða- og umbótastarf verið stór þáttur í starfsemi Tryggingastofnunar um langt skeið en sífellt má gera betur. Bregðast þarf við nýjum þörfum og kröfum og nýta til þess alla þá tækni og úrræði sem til eru á hverjum tíma. Úttekt Ríkisendurskoðunar mun nýtast til úrbóta í starfsemi okkar en þar er einnig að finna stuðning við áherslur Tryggingastofnunar í umbótastarfi undanfarinna ára. Má þar nefna stuðning við að fá nauðsynlegar upplýsingar á rafrænu eða stafrænu formi frá stofnunum og lífeyrissjóðum til þess að bæta þjónustu við viðskiptavini og minnka frávik í réttindagreiðslum. Að þessu höfum við unnið um árabil en ýmsar hindranir hafa tafið framgang verkefnisins.

Greiðslukerfi lífeyrisréttinda

Réttindi til lífeyris almannatrygginga ráðast af tekjum og aðstæðum hvers og eins. Verði breytingar þar á geta réttindin breyst. Mikilvægt er að allir njóti réttinda sinna til fulls en í mörgum tilvikum er um stóran hluta eða alla framfærslu lífeyrisþegans að ræða.

Mánaðargreiðslur lífeyris almannatrygginga byggja lögum samkvæmt á áætluðum árstekjum lífeyrisþegans. Ársréttindin eru reiknuð út frá þeim og mánaðarlegar greiðslur verða jafnar eða 1/12 hluti áætlaðra ársréttinda. Þannig er í lögunum gert ráð fyrir jafnri dreifingu tekna allt árið, sem er ekki raunin hjá mörgum lífeyrisþegum. Sumir fá jafnvel ófyrirséðar tekjur eða eingreiðslur sem geta haft mikil áhrif á lífeyrisréttindin.

Lífeyrisþegar geta breytt tekjuáætlunum sínum allt greiðsluárið og Tryggingastofnun vinnur jafnframt að því að minnka frávik í lífeyrisgreiðslum eins og kostur er. Breytingar á tekjuáætlun geta haft afturvirk áhrif á þegar greiddan lífeyri og skapað frávik í réttindagreiðslum sem eru ýmist inneignir eða endurkröfur. Árlegt uppgjör Tryggingastofnunar tryggir að endingu öllum lífeyrisþegum réttar greiðslur.

Að mati Tryggingastofnunar þarf að gera breytingar á lögum um almannatryggingar til þess að draga úr og helst eyða að fullu kröfum um endurgreiðslur lífeyris. Aftur á móti má gera ráð fyrir að í lífeyriskerfi þar sem tekið yrði tillit til breytilegra tekna innan ársins þurfi að koma til endurreiknings á hugsanlegum inneignum að árinu liðnu. Þannig verði bestu réttindi lífeyrisþegans tryggð að fullu þegar tekjudreifing ársins liggur fyrir, eins og kveðið er á um í nýlegum breytingum á almannatryggingalögunum um meðferð atvinnutekna.

Uppbyggileg umræða um lífeyriskerfið er mikilvæg, því ítrekum við að Tryggingastofnun fagnar úttekt Ríkisendurskoðunar á stofnuninni og stöðu almannatrygginga. Vonir eru bundnar við að hún leiði til úrbóta og einföldunar á flóknu kerfi, lífeyrisþegum til hagsbóta.

Hlekkur á skýrslu Ríkisendurskoðunar