Fjarheilbrigðisþjónusta eykst vegna COVID-19

08. september 2020

Sem liður í að koma til móts við viðskiptavini Tryggingastofnunar meðan Covid-19 faraldurinn gengur yfir býður stofnunin nú upp á skoðun ákveðinna hópa umsækjenda um örorkulífeyri með fjarviðtali við lækni.

Áskorunin

Aðstæður vegna Covid-19 gerðu það að verkum að margir viðskiptavinir Tryggingastofnunar gátu ekki sótt viðtal á stofu til læknis. Með fjarviðtali við lækni er vonast til að hægt verði að mæta þörfum þessa hóps, og jafna aðgengi umsækjenda að mati og viðtali við skoðunarlækna.

Hvað var gert?

Tryggingastofnun samdi við fyrirtækið Kara Connect um tilraunaverkefni í fjarheilbrigðisþjónustu fyrir viðskiptavini TR þar sem læknir tekur viðtal við viðskiptavini í gegnum tölvu í stað heimsóknar. Verkefnið getur, ef vel tekst til orðið valkostur til lengri tíma, allt eftir eðli sjúkdóma og fötlunar sem leiða til óvinnufærni t.d. hjá þeim sem búa á landsbyggðinni eða eiga jafnvel erfitt með að komast á stofu til læknis.

Hvaða virði skapaðist?

Verkefnið um fjarskoðun er enn á byrjunarstigi. Fyrstu vísbendingar gefa til kynna að væntingar um að verkefnið skili aukinni skilvirkni og gæðum og dragi jafnframt í einhverjum tilfellum úr kostnaði og spari tíma standist. Lærdómurinn af verkefninu er sá að annars vegar gætu rafrænar samskiptalausnir nýst í fleiri verkefnum í þjónustu við viðskiptavini hjá TR, eins og t.d. fyrir ráðgjöf og hins vegar er sterkar vísbendingar um aukna ánægju allra hlutaðeigandi með því styðja við upplifunina á bættri þjónustu. Ávinningurinn af slíkri fjarheilbrigðisþjónustulausn myndi til lengri tíma bæta og jafna aðgengi umsækjenda að mati og viðtali skoðunarlækna, bæta skilvirkni í afgreiðslu mála, draga úr kostnaði og fyrirhöfn við ferðalög og draga úr biðtíma og frestun mála.
Upplýsingar um verkefnið veita
Herdís Gunnarsdóttir hjá Tryggingastofnun: herdis.gunnarsdottir@tr.is