Leiðrétting búsetuhlutfalls örorkulífeyrisþega

09. júlí 2020

Fyrir rúmu ári síðan hóf TR vinnu við endurskoðun og leiðréttingu búsetuhlutfalls í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis nr. 8955/2016. Framvinda málsins er í samræmi við tímaáætlun og er gert ráð fyrir að leiðréttingu verði lokið á árinu 2021.

Endurskoðun búsetuhlutfalls nær til 1. júní 2014 hjá örorkulífeyrisþegum sem hafa verið búsettir í öðru EES/EFTA landi. Um er að ræða um 1.450 manns. TR hefur lokið endurskoðun hjá 499 einstaklingum og er með 954 mál í vinnslu.

Flókin úrvinnsla

Endurskoðun og leiðrétting getur verið flókin og hafa ber í huga að hún leiðir ekki í öllum tilvikum til hækkunar á greiðslum.

Skoða þarf hvert mál fyrir sig en í mörgum tilvikum þarf að kalla eftir frekari upplýsingum bæði frá lífeyrisþega og þeim EES/EFTA löndum þar sem um búsetu er að ræða. Afgreiðsla getur því tekið mislangan tíma eftir aðstæðum hvers og eins. Til að meta réttindi þarf m.a. að skoða ítarlega hvernig réttindi skapast, hvar búseta var við upphaf örorku, hvort um greiðslur lífeyris er að ræða frá öðru EES/EFTA landi og hvernig þær greiðslur eru reiknaðar. Þegar allar upplýsingar liggja fyrir eru lífeyrisgreiðslur TR endurskoðaðar. 

Útreikningar á nýjum tilfellum

Frá 1. júní 2019 hafa 110 einstaklingar með lækkað búsetuhlutfall hér á landi fengið samþykkta örorku. Þegar af hafa 37 fengið samþykktan 100% framreikning örorkulífeyris og fá greitt í samræmi við það. Beðið er nauðsynlegra gagna erlendis frá í málum 73 einstaklinga sem hafa fengið greiðslur byggðar á bráðabirgðaútreikningi svo hægt sé að ljúka endanlegum útreikningi lífeyris. 

Samskipti við TR

Ekki er þörf á að sækja um endurskoðun á búsetuhlutfalli heldur mun TR fara yfir mál allra sem eru með lækkað búsetuhlutfall vegna búsetu í öðru EES – ríki og fá allir bréf um niðurstöðu endurskoðunarinnar.

Hægt er að senda fyrirspurn á netfangið buseta@tr.is eða lesið um  endurskoðun á búsetuútreiknings hér.