Nýir framkvæmdastjórar hjá Tryggingastofnun

15. júní 2020

Herdís Gunnarsdóttir hefur tekið við framkvæmdastjórastöðu réttindasviðs Tryggingastofnunar og Davíð Ólafur Ingimarsson hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra rekstrarsviðs stofnunarinnar

Herdís Gunnarsdóttir hefur tekið við framkvæmdastjórastöðu réttindasviðs Tryggingastofnunar. Um er ræða nýtt svið innan stofnunarinnar sem sameinar lífeyrissvið og færnisvið en þar starfa um 60 manns. Helstu verkefni réttindasviðs eru þjónusta við viðskiptavini, afgreiðsla umsókna, ákvörðun réttinda og stjórnsýslumál.

„Þetta er mjög áhugaverður starfsvettvangur og spennandi áskorun að taka við mikilvægu stjórnunarstarfi hjá stærstu stofnun á sviði velferðarmála á Íslandi. Verkefni TR eru vel skilgreind en um leið flókin og vandasöm. Mikilvægt er að þjónustan sem snertir velferð og réttindi einstaklinga sé áreiðanleg og traust enda fer TR með ein viðkvæmustu mál einstaklinga,“ segir Herdís en hjá TR starfa nú um 100 manns í nýlegu húsnæði stofnunarinnar að Hlíðasmára 11, Kópavogi. „Það er afar ánægjulegt að koma til starfa hjá TR og finna að hér starfar öflugur hópur sérfræðinga sem leggur metnað í að veita góða og áreiðanlega þjónustu. Það er afar gott samstarf  hér innanhúss og ég hlakka til að takast á við fjölmörg krefjandi verkefni, með hinu öfluga teymi sem vinnur hjá TR. Góð þjónusta og samvinna við alla aðila er mitt leiðarljós að árangri.“

Herdís  hefur mikla stjórnendareynslu á heilbrigðissviði, en hún var m.a. forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands 2014 – 2019. Á árunum 2001-2014 starfaði hún á Landspítala m.a. sem klínískur verkefnastjóri á sviði upplýsingatækni og á þróunarskrifstofu framkvæmdastjóra hjúkrunar. Hún var mannauðs- og gæðastjóri hjá Barnaspítala Hringsins og hjúkrunardeildarstjóri á barnaskurðdeild, lyflækningadeild og dagdeild barna á Landspítala.  Að auki hefur hún mikla reynslu af stjórnarstörfum á vettvangi félagasamtaka, stéttarfélaga, lífeyrissjóða, banka og í Evrópusamstarfi.  Má þar nefna að hún var um tíma stjórnarformaður Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga og situr nú í varastjórn Íslandsbanka. Herdís er með BSc-próf í hjúkrunarfræði frá HÍ og MSc-próf í barnahjúkrun. Árið 2009 lauk hún MBA prófi frá HÍ.

Davíð Ólafur Ingimarsson hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Tryggingastofnunar. Helstu verkefni rekstarsviðs eru fjárhagsgreiningar, bókhald, útgreiðslur, innheimta og eftirlit, skjalastjórnun, póstmiðstöð, rekstur húsnæðis og almenn símsvörun.

,,Ég hef ávallt haft mikinn áhuga á almannatrygginga- og lífeyriskerfinu og sit í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins. Tryggingastofnun er ein mikilvægasta þjónustustofnun landsins með um 70.000 viðskiptavini og árlegar útgreiðslur í kringum 160 ma.kr. Hátt hlutfall af fjárheimildum ríkissjóðs flæðir í gegnum stofnunina og því mikilvægt að vanda til verka með hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi,“ segir Davíð. „Þetta er einstakt tækifæri fyrir mig til að láta gott af mér leiða og nýta þá menntun og reynslu sem ég hef úr fjármálum og tölvu- og tæknigeiranum. Ég hlakka til að takast á við þær áskoranir sem eru framundan hjá stofnuninni á komandi misserum.“

Davíð hefur umtalsverða fjármála og stjórnunarreynslu úr orku- og hugbúnaðargeiranum. Á árunum 2007-2015 starfaði hann sem yfirmaður lánamála og sjóðastýringar hjá Landsvirkjun. Á árunum 2015-2017 starfaði hann sem fjármálastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Greenqloud og var einn af lykilmönnum í söluferli fyrirtækisins til bandaríska félagsins NetApp. Fyrirtækið var selt á yfir fimm (5) milljarða króna sem var ein stærsta sala á íslensku hugbúnaðarfyrirtæki. Frá árinu 2017, þangað til hann hóf störf hjá Tryggingastofnun, starfaði hann m.a. sem forstjóri Guide to Iceland sem er hugbúnaðarfyrirtæki í ferðaþjónustu. Að auki hefur hann setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja og var yfir tíu ár stundakennari við Háskóla Ísland. Davíð er með B.Sc. og M.Sc. próf í hagfræði, M.Sc. próf í fjármálum fyrirtækja og er löggiltur verðbréfamiðlari.

Herdís.jpg Davíð.jpg