TR tekur þátt í verkefni tengdu fjarheilbrigðisþjónustu

28. maí 2020

Tryggingastofnun hefur samið við Köru Connect um tilraunaverkefni í fjarheilbrigðisþjónustu fyrir viðskiptavini TR.  Tilraunaverkefnið eru viðbrögð TR við þeirri tímabundnu hindrun sem sóttvarnaraðgerðir vegna Covid-19 fólu í sér varðandi komur á stofu í læknisskoðun. Með verkefninu er verið að kanna hvort fjarheilbrigðisþjónusta komi að gagni við skoðun ákveðinna hópa, t.d. fyrir umsækjendur um örorkulífeyri eða viðskiptavina sem dvelja erlendis.

Hjá TR er verkefnið unnið með Köru Connect í samvinnu við tvo sérfræðilækna.  Þeir bjóða upp á viðtal og framkvæma skoðun með hugbúnaði Köru Connect fyrir tiltekna umsækjendur, sem eru valdir sérstaklega og boðin þessi útfærsla á þjónustu. Slík fjarskoðun fer þannig fram að umsækjandi fær boð um matsviðtal við lækni í gegnum vottuð fjarsamskipti í síma eða tölvu. Samskiptin eru vottuð og varin af staðli Persónuverndar. Um er að ræða samskiptatækni sem uppfyllir alla staðla landlæknis um fjarheilbirgðisþjónustu. 

Af Embætti Landlæknis. Lausnin sem Kara Connect notar er einföld í notkun fyrir umsækjendur sem þurfa aðgang að tölvu með myndavél. Við fjarskoðun þarf umsækjandi, ekki að fara á stofu til skoðunarlæknisins, heldur getur verið heima hjá sér eða þar sem hann er nettengdur.

Með tilraunaverkefninu er verið að kanna hvernig fjarþjónusta af þessu tagi geti nýst viðskiptavinum TR. Aðstæður vegna Covid-19 gerðu það að verkum að margir geta ekki sótt viðtal á stofu til læknis. Með fjarviðtali við lækni er vonast til að hægt verði að mæta þörfum þessa hóps. Fyrstu viðtöl gefa góðar vonir um að fjarskoðun gefi góða raun fyrir tiltekin hóp viðskiptavina TR. Verkefnið getur jafnframt orðið valkostur til lengri tíma, allt eftir eðli sjúkdóma og fötlunar t.d. hjá þeim sem búa á landsbyggðinni eða eiga jafnvel erfitt með að komast á stofu til læknis. Ávinningurinn af slíkri fjarheilbrigðisþjónustulausn myndi til lengri tíma bæta og jafna aðgengi umsækjenda að mati og viðtali skoðunarlækna, bæta skilvirkni í afgreiðslu mála, draga úr kostnaði og fyrirhöfn við ferðalög og draga úr biðtíma og frestun mála. Því taldi stofnunin eðlilegt fyrsta skref að takast á hendur tilraunaverkefni í samstarfi við Köru Connect og að þremur mánuðum liðnum verður lagt mat á hvernig þessi þjónusta nýttist.