Tekjuáætlanir lífeyrisþega nær rauntekjum en áður

22. maí 2020

Inneignir vegna endurreiknings 2019 greiddar út 1. júní. Endurgreiðslur vegna ofgreiðslu hefjast 1. september.

Tryggingastofnun hefur lokið endurreikningi á tekjutengdum greiðslum ársins 2019. Niðurstaða endurreikningsins leiðir í ljós að um 50% þeirra sem fengu tekjutengdar greiðslur á síðasta ári eiga inni greiðslur, eða um 31 þúsund manns. Flestir þeirra eiga inneignir undir 30.000 krónum. Um 40% af hópnum, eða rúmlega 25 þúsund manns, fengu ofgreitt. Kröfur vegna ofgreiðslna lækka umtalsvert að meðaltali á milli ára en flestir skulda undir 35.000 krónum. Af þessu má draga þá ályktun að tekjuáætlanir lífeyrisþega hafi verið nær rauntekjum en árið áður, sem er jákvæð þróun.

Niðurstöður á Mínum síðum

Hægt verður að skoða niðurstöður endurreiknings á Mínum síðum á tr.is frá 25. maí nk. og verða inneignir greiddar þann 1. júní. Lífeyrisþegar sem fengu ofgreitt byrja að endurgreiða kröfur 1. september.

Endurreikningurinn byggir á tekjuupplýsingum úr staðfestum skattframtölum einstaklinga fyrir árið 2019 og er hann borinn saman við það sem viðkomandi fékk greitt frá TR á grundvelli uppgefinna tekna í síðustu tekjuáætlun fyrir árið. Þessi samanburður leiðir í ljós hvort lífeyrisþegi hafi fengið réttar greiðslur, eða hvort frávik valdi þvi að einstaklingur hafi fengið vangreitt eða ofgreitt á árinu 2019.

Eðlilegt er að frávik á greiðslum komi fram við endurreikning þar sem erfitt getur reynst að áætla tekjur fram í tímann. Tiltölulega litlar breytingar á tekjum geta orsakað frávik frá greiðslum við endurreikning.

Úrræði vegna niðurstöðu uppgjörs og innheimtu krafna

Ef lífeyrisþegi hefur athugasemdir við niðurstöðuna er hægt að andmæla henni eða hafa samband við Skattinn vegna skattbreytinga. Nánari upplýsingar um úrræðin má finna hér.

Almenna reglan er sú að kröfur beri að endurgreiða á 12 mánuðum en sérstaklega er bent á að ef það reynist íþyngjandi er ávallt hægt að hafa samband við TR og semja um lengri tíma. Nánari upplýsingar um úrræði vegna innheimtu má nálgast hér.

Rafrænar þjónustuleiðir

Lífeyrisþegar eru hvattir til að skoða niðurstöðuna á Mínum síðum og að nýta sér rafrænar þjónustuleiðir við fyrirspurnir og önnur erindi. Algengum spurningum varðandi endurreikninginn er svarað á tr.is undir liðnum spurt og svarað.