Vegna tilvísunar TR í úrskurð Persónuverndar

21. apríl 2020

Að gefnu tilefni vill TR upplýsa að í svari við fyrirspurn frá fjölmiðli sl. föstudag um notkun stofnunarinnar á IP tölum var vísað í úrskurð Persónuverndar frá 2009 fyrir mistök. Beðist er velvirðingar á því. Verklagi stofnunarinnar við meðferð IP talna í eftirliti var breytt í árslok 2019.

Réttindi til ýmissa greiðslna byggjast á búsetu á Íslandi. Eitt af hlutverkum lögbundins eftirlits stofnunarinnar er því að fara yfir og staðfesta búsetu viðkomandi aðila.  Þegar verið er að kanna búsetu eru ýmis gögn könnuð og m.a. IP tala sem getur gefið vísbendingu um hvar viðkomandi aðili býr. IP tölur eru skoðaðar í ljósi annarra gagna sem fyrir liggja í hverju máli fyrir sig og eru því ekki eina gagn máls. Ef skýring frá viðkomandi telst eðlileg er málinu lokið og ekkert er frekar aðhafst.

Persónuvernd verður gerð grein fyrir verklagi TR við notkun á IP tölum við eftirlit, sem TR ber að sinna skv. 45. gr. í lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 svo og 38. gr. sömu laga er kveða á um rannsóknarskyldu stofnunarinnar.

Á vef TR má m.a. sjá nánari upplýsingar um hvernig TR sinnir eftirliti og einnig skrá yfir vinnslur Tryggingastofnunar vegna bótaflokka, þar sem fram kemur tilvísun í lagaákvæði, nauðsynlega öflun gagna bæði frá umsækjendum og þeim sem TR aflar gagna frá og hvernig eftirliti við hvern bótaflokk er háttað.