Leiðréttar greiðslur til dánarbúa ellilífeyrisþega fyrir janúar og febrúar 2017

15. apríl 2020

Tryggingastofnun hefur afgreitt til útgreiðslu leiðrétt réttindi þeirra dánarbúa ellilífeyrisþega sem eiga réttindi fyrir janúar og febrúar 2017 og ekki var búið að afgreiða. Stofnunin hefur þegar leiðrétt réttindi ellilífeyrisþega sem og réttindi þeirra dánarbúa þar sem maki situr í óskiptu búi.

Bréf hafa verið send til forsvarsmanna dánarbúanna með nánari upplýsingum um útgreiðslu réttinda ásamt því að birt hefur verið auglýsing í Lögbirtingablaðinu. Fullnægjandi umboð og upplýsingar um bankareikning umboðsmanns viðkomandi dánarbús þurfa að liggja fyrir hjá Tryggingastofnun til að hægt sé að greiða leiðrétt réttindi. Skila þarf umræddum gögnum í gegnum Mínar síður á tr.is. Umboðsmaður þarf að skrá sig inn hér. Vakin er athygli á að hafi skiptum dánarbús verið lokið telst umboð sem var í gildi á meðan skiptum var ólokið ekki gilt.

Umrædda leiðréttingu má rekja til niðurstöðu dóms Landsréttar í máli nr. 466/2018. Þar var niðurstaðan sú að ekki var talið heimilt að láta greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum hafa áhrif á ellilífeyri til lækkunar í janúar og febrúar 2017.

Um er að ræða um 3.100 dánarbú þar sem réttindi auk vaxta nema alls um 450 milljónum króna. Gera má ráð fyrir að næstu misserin muni fullnægjandi gögn berast TR og leiðrétting verði greidd. Með þeirri afgreiðslu telst leiðréttingu í kjölfar framangreinds dóms lokið.