Árið 2019 fengu 220 einstaklingar á aldrinum 18 - 29 ára 75% örorkumat í fyrsta sinn en 5 ára meðaltal nýgengis áranna á undan (2014-2018) var 296 einstaklingar. Þarna er því um 25% lækkun nýgengis örorku í yngsta aldurshópnum að ræða miðað við 5 ára tímabilið á undan. Nokkrar sveiflur eru í nýgengi milli einstakra ára en töluverð aukning varð í nýgengi 75% örorkumats þessa aldurshóps 2016-2018. Því hefur á undanförnum árum sjónum verið beint sérstaklega að aldurshópnum 18-29 ára.
Tryggingastofnun er þátttakandi í samvinnuverkefninu 4DX, sem er verkefni félagsmálaráðuneytisins þar sem markmiðið er að auka lífsgæði ungs fólks með skerta starfsgetu og auka virknihlutfall 18-29 ára með aukinni samvinnu þjónustukerfa. V innumálastofnun, heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, félagsþjónustan í Reykjavík og Virk standa einnig að þessu verkefni. Stefnt var að því að lækka nýgengi örorkumats aldurshópsins um 25% á árinu 2019 og nú er ljóst að því markmiði hefur verið náð. Verkefnið heldur áfram á árinu 2020 og er markmiðið að auka enn frekar þátt endurhæfingar hjá ungu fólki með skerta starfsgetu af læknisfræðilegum ástæðum.
Umsóknum frá ungu fólki vegna endurhæfingar og örorku fjölgar stöðugt og hafa þær aldrei verið fleiri en 2019 og fóru yfir 4000 samtals en þróunin undanfarin ár hefur verið sú að stöðugt fleiri endurhæfingarlífeyrisumsóknir eru samþykktar. Þær voru um 1.400 árið 2014 en voru komnar í um 2.400 árið 2019 sem er yfir 70% aukning samþykktra endurhæfingarlífeyrisumsókna ungs fólks.
TR byggir mat sitt á sérstökum staðli sem byggður er á læknisfræðilegum viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun og er tryggingayfirlækni heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingar áður en til örorkumats kemur.